Grindavík lagði Hauka að velli í Domino’s deild karla fyrir helgi, 90-80. Leikurinn var mjög jafn og spennandi og það var ekki fyrr en rétt í blálokin sem Grindavík náði að slíta sig almennilega frá gestum og sigla sigrinum í höfn. Hinn 19 ára Ingvi Þór Guðmundsson var drjúgur fyrir Grindavík á lokasprettinum, en hann varð stigahæstur leikmanna liðsins, með 18 stig.
Karfan.is var bæði með fréttaritara og ljósmyndara á staðnum:
Grindavík 90 – 80 Haukar
Mótið í ár byrjar nákvæmlega eins fyrir Grindvíkinga og í fyrra, heimaleikir gegn Þór Þ og svo Haukum. Sama byrjun, tveir sigrar. Haukar skörtuðu nýjum Kana, Paul Jones og verður hann hvorki hafður upp til skýjanna né aflífaður eftir þennan leik en ef ég yrði að velja, þá er höggstokkurinn hans hlutskipti….
Þáttaskil
Eins furðulega og það má líta út, þá voru þáttaskil í leiknum þegar Dagur Kár Jónsson fékk brottrekstrarvillu þegar skammt lifði leiks og allt í járnum. Margur hefði haldið að þar með myndu Haukarnir ganga á lagið en því fór víðs fjarri og besti leikmaður Grindavíkur, hinn bráðefnilegi Ingvi Þór Guðmundsson tók leikinn yfir með 3 körfum í röð, m.a. stolnum bolta sem skilaði sér í körfu.
Tölfræðin lýgur ekki
Nei, tölfræðin bakkar hið minnsta upp fullyrðingu mína um að Ingvi Þór hafi verið besti leikmaður Grindavíkur en hann var hæstur í framlagspunktum og stigum, 18 í hvoru. Hann tók leikinn yfir þegar mest á reyndi undir lok hans og virðist oft á tíðum vera algerlega taugalaus en hann er ekki nema rétt rúmlega fermdur….
Haukamegin er kannski forvitnilegast að rýna í tölfræði Paul Jones. Hann hitti vel en væntanlega vill Ívar þjálfari sjá hann skjóta oftar en 9 sinnum á körfuna. En 6 tapaðir boltar er ansi mikið en í heildina skilaði hann 13 framlagspunktum. Betur má ef duga skal fyrir Kana. Hins vegar athyglisvert að Haukum gekk best á meðan hans naut við inni á vellinum en hann kom best út úr +- dálknum með 5+. Svo við skulum ekki aflífa hann strax 🙂
Hetjan
Fyrr- og títtnefndur Ingvi Þór fellur undir þessa skilgreiningu í kvöld. Frábær þegar mest á reyndi og ljóst að hann á bjarta framtíð fyrir sér í þessari íþrótt. Algerlega óhræddur við sviðið, sama hversu stórt það er.
Ef hægt er að tala um hetju Haukamegin í tapleik, þá vel ég að tylla Emil Barja á þann stall. Hann var flottur í kvöld með 19 stig, 8 fráköst og 8 fiskaðar villur. Finnur Magnússon var samt framlagshæstur Hauka með 17 puntka (12 stig og 9 fráköst).
Kjarninn
Grindavík byrjar mótið hið minnsta með 2 sigurleikjum en spilamennskan hefur ekki heillað neinn upp úr skónum. Alltaf sterkt að vinna slíka leiki en Jóhann var sáttari við þennan leik en þann fyrst eins og fram kemur í viðtali sem hér fylgir með. Næsti leikur hjá gulum er í bikarnum á móti Fsu á útivelli, n.t. mánudagskvöldið 16. október. Næsti leikur í deild einn af þeim stóru fyrir gula, grannaslagur við Keflavík í Sláturhúsinu.
Haukarnir með 1/1 en þeir eru nýbúnir að skipta um Kana og því ekki hægt að dæma þá mikið á þessum tímapunkti. Næsti leikur þeirra er sömuleiðis bikarleikur, á móti Stjörnunni og má gera ráð fyrir að við ramman reip verði fyrir þá að draga í þeim leik ef spilamennskan verður ekki betri en í fyrstu tveimur leikjunum. Næsti deildarleikur þeirra er svo á heimavelli á móti Þór Þ.
Umfjöllun & viðtöl / Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Myndir / Benóný Þórhallsson