GRINDAVÍK ÍSLANDSMEISTARI

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

GRINDAVÍK ER ÍSLANDSMEISTARI! Eftir 16 ára bið tókst Grindavík að landa titlinum með glæsilegum sigri í fjórðu rimmunni gegn Þór í Þorlákshöfn 78-72. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í leikslok og allt ætlaði um koll að keyra.  J´Nathan Bullock átti sannkallaðan stórleik í liði Grindavíkur í kvöld en hann skoraði 36 stig í leiknum og tók 8 fráköst.

Ósvikin stemmning, þar sem móða myndaðist á gleraugum ónefnds fréttamanns, spenna, stemmning og miklar tilfinningar. Þetta gat ekki klikkað í Þorlákshöfn í kvöld, húsið svo smekkfullt að síðasta manni hlýtur að hafa verið smokrað inn með vaselíni og tónlistarvalið það besta sem lagt er fyrir í íslenskum íþróttahúsum. Þórsarar og Grindvíkingar buðu upp á svakalega skemmtun í fjórða leik sínum í úrslitarimmu Iceland Express-deildar karla, í leik þar sem Grindvíkingar gátu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Gestirnir úr Grindavík virkuðu betur stemmdir á upphafsmínútum leiksins, voru djarfari og ákveðnari í öllum sínum aðgerðum, grimmari í frákastabaráttunni og náðu ágætum tökum á hlutunum í fyrsta leikhlutanum. Þórsarar eru hins vegar þekktir fyrir flest annað en að gefa sitt eftir og stemmningin og áræðið sem einkennt hefur þá í úrslitakeppninni skutu upp kollinum í öðrum leikhluta. Leikurinn sveiflaðist svolítið á sveif með heimamönnum þótt leikur þeirra væri fjarri því að vera gallalaus og góður sprettur undir lok hálfleiksins, þar sem m.a. þriggja stiga skot rötuðu rétta leið sem aldrei fyrr, tryggði þeim þriggja stiga forystu í hálfleik, 36-33. Í raun var fátt óvænt í leik liðanna, varla við slíku að búast í fjórða leik úrslitarimmu; J´Nathan Bullock og Darrin Govens voru atkvæðamestu menn liðanna, en kannski kom það einna helst á óvart hversu hljóðlátur og hægverskur Þórsarinn Guðmundur Jónsson var í þessum leik. Hinum megin lét Giordan Watson lítið fyrir sér fara í stigaskorun og Grindvíkingar höfðu umtalsverða yfirburði í frákastabaráttunni í fyrri hálfleik, hirtu þá 22 fráköst gegn 10 fráköstum Þórsara.

Grindvíkingar hófu síðari hálfleikinn af nokkurri ákefð, létu Þórsara vinna hressilega fyrir hlutunum og refsuðu fyrir minnstu mistök. Þeir settust aftur í bílstjórasætið og sátu þar meira og minna það sem eftir lifði leik. Baráttan var þó fjarri því að vera auðveld eða einföld, Þórsarar svöruðu öllum áhlaupum af miklum myndarskap og héldu spennustigini í hæstu hæðum. Þeir hleyptu Grindvíkingum aldrei of langt frá sér, munurinn var lengstum á bilinu fjögur til sex stig. Rétt í þann mund sem leikklukkan sýndi að þrjár mínútur voru til leiksloka tók Darrin Govens sig hins vegar til og kom Þórsurum yfir með þriggja stiga skoti, 68-67. Grindvíkingar endurheimtu forystuna, 69-68, og næstu mínútur einkenndust af mistökum og þvinguðum skotum á báða bóga. Grindvíkingar voru stigi yfir þegar tæp mínúta var eftir, Þórsarar þá nýbúnir að klúðra tveimur vítaskotum og gestirnir komust þremur stigum yfir í næstu sókn sinni. Þórsarar náðu ekki að svara fyrir sig, luku sókn þegar 18 sekúndur voru eftir og þurftu að brjóta umsvifalaust á Bullock. Hann setti þau bæði niður og munurinn því orðinn fimm stig. Þórsurum tókst ekki að klóra í bakkann og lokatölur 72-78 fyrir Grindvíkinga sem eru verðskuldaði Íslandsmeistarar í körfuknattleik árið 2012. 

Grindavík: J’Nathan Bullock 36/8 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/9 fráköst, Þorleifur Ólafsson 10/4 fráköst, Giordan Watson 7/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ryan Pettinella 6, Jóhann Árni Ólafsson 4/7 fráköst/6 stoðsendingar, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Páll Axel Vilbergsson 0/4 fráköst.

Myndir: Sport.is – Efri: Páll Axel varð Íslandsmeistari með Grindavík fyrir 16 árum, hann tók á móti bikarnum í kvöld!