Grindavík Íslandsmeistarar í 9. fl. kvenna

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Þrátt fyrir að enginn Íslandsmeistaratitill hafi komið í hús í meistaraflokki þetta árið hafa titlarnir engu að síður sópast til Grindavíkur undanfarnar helgar, og varð engin breyting þar á um helgina. Stelpurnar í 9. flokki kvenna tryggðu sér titilinn um helgina með mögnuðum sigri á erkifjendunum úr Keflavík, 42-41.

Snillingurinn Jón Björn Ólafsson hjá karfan.is mætti á leikinn og skrifaði umfjöllun og tók nokkrar myndir:

Grindavík er Íslandsmeistari í 9. flokki kvenna eftir magnaðan 42-41 sigur gegn Keflavík í bráðfjörugum úrslitaleik liðanna. Ólöf Rún Óladóttir var valin besti maður leiksins með 20 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar í liði Grindavíkur en hún skellti niður risavöxnum þrist fyrir Grindavík sem reyndust lokastig leiksins þegar 19 sekúndur voru eftir af leiknum. Keflvíkingar gerðu sig líklega til að stela sigrinum með hörku frammistöðu í fjórða leikhluta en Ólöf Rún setti þetta stórskot niður og kláraði leikinn.

Grindvíkingar mættu klárir til leiks og komust í 10-5 þar sem Vigdís María Þórhallsdóttir gerði sex af fyrstu tíu stigum Grindvíkinga í leiknum. Keflvíkingar náðu þó að safna vopnum sínum og minnkuðu mininn í 15-14 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta.

Keflvíkingar mættu með grimma vörn inn í annan leikhluta og jöfnuðu metin 19-19 en Grindvíkingar með Ólöfu Rún í góðum gír slitu sig frá að nýju og leiddu 24-20 í hálfleik. Ólöf Rún var með 10 stig hjá Grindavík í hálfleik en Hjördís Lilja Traustadóttir var með 5 stig í liði Keflavíkur.

Ólöf Rún var ekki lengi að tengja við síðari hálfleikinn og smellti í þrist fyrir Grindavík, 27-20. Áfram hélt Ólöf að vera Keflvíkingum erfið og kom Grindvíkingum í 10 stiga forystu 35-25 en Keflavík náði að minnka muninn í 37-29 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Hjördís Lilja Traustadóttir opnaði fjórða leikhluta fyrir Keflavík með sterku gegnumbroti og minnkaði muninn í 37-31. Keflvíkingar settu glæsilegan kafla í gang hjá sér og tvær sóknir í röð var Sigurbjörg Eiríksdóttir með kennslustund á blokkinni og náði að minnka muninn í 39-35. Varnarleikur Keflavíkur var sterkur og Grindvíkingar hittu ekkert lungann úr leikhlutanum.

Keflvíkingar jöfnuðu loks 39-39 af miklu harðfylgi og komust svo í 39-41 þegar Hjördís Lilja Traustadóttir stal boltanum, brunaði upp völlinn og skoraði. Hvert skotið á fætur öðru var búið að geiga í leikhlutanum hjá Grindavík og staðan í honum 2-10 fyrir Keflavík allt þar til 19 sekúndur lifðu leiks en þá kom Ólöf Rún með körfu leiksins. Ólöf setti djarfan þrist á loft sem rataði niður og kom Grindavík í 42-41 með 19 sekúndur til leiksloka.

Í tvígang fengu Keflvíkingar sniðskot til þess að ná forystunni en bæði dönsuðu grátlega af hringnum. Grindvíkingar fengu boltann í hendurnar með 8 sekúndur eftir af leiknum og þá þurftu Keflvíkingar að brjóta í tvígang til að koma gulum á vítalínunna, þegar það hafðist voru 2,4 sekúndur eftir af leiknum. Grindvíkingar misstu fyrra vítið og brenndu viljandi af því síðara og tíminn rann út í sandinn og Grindavík fagnaði sigri!