Grindavík er komið í undanúrslit úrvalsdeildar karla í körfubolta þegar liðið lagði Þór 89-75 í Þorlákshöfn. Grindavík vann einvígi liðanna 3-1 og mætir Njarðvík í undanúrslitum. Grindavík hafði leikinn í höndum sér allan tímann og sigldi heim öruggum 14 stiga sigri.
Þór náði að minnka muninn í fjögur stig snemma í fjórða leikhluta. En Grindvíkingar settu þá í gírinn og refsuðu fyrir hver mistök auk þess að spila öfluga vörn. Liðið náði öruggri forystu áður en fjórði leikhluti var hálfnaður og það náði Þór aldrei að vinna upp heldur jókst munurinn nánast allt til leiksloka.
Þór Þ.-Grindavík 75-89 (15-17, 18-22, 19-22, 23-28)
Grindavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 24/9 fráköst/6 stoðsendingar/5 varin skot, Earnest Lewis Clinch Jr. 18/11 fráköst/9 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 14/5 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 13/7 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 10/6 fráköst, Kjartan Helgi Steinþórsson 5, Daníel Guðni Guðmundsson 3/4 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 2/6 fráköst.
Sigurður: Ef við leggjum okkur alla fram erum við bestir
„Ég er búinn að vera lélegur sóknarlega í síðustu þremur leikjum þannig að það var kominn tími til að sýna mitt rétta andlit,” sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson sem fór á kostum í liðið Grindavíkur í kvöld.
Sigurður skoraði 24 stig í leiknum en hann gaf tóninn með því að skora níu fyrstu stig Grindavíkur í leiknum.
„Maður verður að mæta í úrslitakeppnina, annars fara menn heim,” sagði Sigurður sem sagði varnarleikinn fyrst og fremst hafa skilað þessum sigri.
„Þeir voru að taka erfið skot og þetta var erfitt hjá þeim. Við gátum hlaupið á þá á móti og fengið sniðskot. Vörnin skapaði þetta allt.
„Vörnin okkar er góð þegar við spilum hana. Ef hitt liðið skorar ekki þá skiptir minna máli hvað þú skorar,” sagði Sigurður en Grindavík hitti úr aðeins tveimur af 16 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.
„Við keyrðum á Ragga (Nathanaelsson) og létum hann vinna vinnuna sína og gerðum þetta erfitt fyrir hann. Þó hann verji eitt, tvö skot þá fáum við boltann aftur í 90% tilfella. Við stressum okkur ekki á því.”
Grindavík mætir Njarðvík í undanúrslitum og það hræðir Sigurð ekki, ekki frekar en önnur lið.
„Ég er brattur. Við unnum þá þrisvar í vetur með bikarnum. Ef við spilum okkar leik þá vinnum við öll lið í deildinni. Þetta snýst um hve mikið við viljum vinna leikinn. Ef við leggjum okkur alla fram þá erum við bestir,” sagði Sigurður brattur.
Viðtal: Vísir.is