Grindavík tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni KKÍ karla með því að leggja granna sína Njarðvík að velli í æsispennandi leik með eins stigs mun, 78-77.Í samantekt Vísis kemur fram að Grindvíkingar komust í undanúrslitin annað árið í röð og í fimmta sinn á síðustu sex tímabilum. Grindavíkurliðið hefur nú slegið bæði Reykjanesbæjarliðin, Keflavík og Njarðvík, út úr bikarnum í síðustu tveimur umferðum.
Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur en Earnest Lewis Clinch, Bandaríkjamaðurinn í liði Grindavíkur fór mikinn í þriðja leikhluta þegar hann skoraði ellefu stig í röð þegar Grindvíkingar breyttu stöðunni úr 47-52 í 58-52.
Lokamínúturnar voru spennandi en Grindvíkingar ávallt skrefinu á undan. Glæsileg frammistaða hjá Grindavík og verður gaman að sjá dráttinn í undanúrslitunum.