Grindavík í kjörstöðu eftir sigur í öðrum leik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík lagði Stjörnuna að velli með 3ja stiga mun, 71 stigi gegn 68, í æsispennandi leik í kvöld í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta karla. Þar með leiðir Grindavík einvígið 2-0 og getur klárað Stjörnuna með því að vinna þriðja leikinn á mánudaginn.

Það var hart barist strax í fyrsta leikhluta í viðureign Stjörnunar og Grindavíkur sem fram fór í Ásgarði í kvöld. Giordan Watson setti tónininn fyrir Grindvíkinga með því að setja niður þrist strax á fyrstu mínútu leiksins og var það þetta forskot sem þeir höfðu út nánast allann leikhlutann. Í fjarveru Fannars Helgasonar í liði Stjörnunar fékk Jovan Zdravevski stærra hlutverk og nýtti hann tækifærið vel. Hann skoraði 7 stig fyrir Garðbæinga strax í 1. leikhluta og gerði það að verkum að þeir leiddu með einu stigi eftir hann, 19-18. Grindavík hóf 2. leikhlutann af miklum krafti en gekk Stjörnumönnum afar erfiðlega að finna glufur á vörn þeirra, sem var eitilþétt. Eins og í fyrri leiknum, voru Garðbæingar að spila flotta vörn á móti og lykilleikmenn hjá Grindavík voru að klúðra galopnum færum. Stjörnumenn fóru illa með boltann undir lok hálfleiksins en þeir áttu innkast með 2.8 sekúndur á klukkunni. Þeir köstuðu boltanum frá sér og Ólafur Ólafsson leikmaður Grindavíkur brunaði fram yfir miðju og setti niður flautu-þrist. Þannig að þegar hálfleiksflautið gall var staðan 33-39 Grindvíkingum í vil, en maður hafði það á tilfinningunni að forystan ætti að vera stærri. Í fyrri hálfleik voru Grindvíkingar aðeins að hitta 60% af vítalínunni og 34% í teignum. Það sem vegaði upp á móti var góð þriggja stiga nýting þeirra en þeir settu niður 5 af 11 þriggja stiga skotum sínum. Stjarnan var aftur á móti með 12% þriggja stiga nýtingu, 1/8. Hjá Grindavík var J’Nathan Bullock stigahæstur í fyrri hálfleik með 11 stig og 4 fráköst en hjá Stjörnuni voru þeir Keith Cothran og Jovan Zdravevski stigahæstir með 7 stig hvor

Það voru ekki góð tíðindi fyrir Grindvíkinga í upphafi síðari hálfleiks þegar að Sigurður Þorsteinsson fékk sína 4. villu. Það er reyndar staðreynd að ef eitthvað lið má við því að missa leikmenn snemma úr leik, er það Grindavík en liðið býr yfir gífurlegri breidd. Grindvíkingar náðu 10 stiga forskoti, 46-36 en þá tók Justin Shouse, sem hafði haft hægt um sig í leiknum fram að þessu, til sinna ráða og skoraði 5 stig í röð. Það fór heldur betur að hitna í kolunum þegar að Justin Shouse fiskaði villu á Ólaf Ólafsson sem lét Justin heldur betur heyra það. Við það reiddist Renato Lindmets og lá við slagsmálum milli Ólafs og Renato. Það virtist sem fráköstin ætluðu að halda Grindvíkingum inn í leiknum. Þeir voru að skjóta afar illa í 3. leikhuta en þeim til happs féll hvert einasta frákast með þeim. Jovan nokkur Zdravevski kom Stjörnumönnum yfir í fyrsta skipti í langan tíma með þrist þegar tæp mínúta var eftir af þriðja leikhluta og ærðust áhorfendur í Ásgarði. Liðin skoruðu sitthvort stigið það sem eftir var leikhlutans og að honum loknum höfðu heimamenn tveggja stiga forystu, 53-51. Villuvandræði virtust gera vart við í hjá Grindvíkingum í upphafi 4. leikhluta en þá voru þrír leikmenn liðsins komnir með 4 villur og munar um minna. Giordan Watson hóf leikhlutan á þrist fyrir Grindavík en þá kom góður kafli heimamanna þar sem þeir skoruðu 8 stig í röð og hleyptu Grindvíkingum varla í skot. Grindvíkingar skoruðu ekki í tæpar 6 mínútur. Grindvíkingar komu hinsvegar sterkir til baka og minnkuðu forskot Stjörnunar í 4 stig og við það fékk Renato Lindmets sína 5. villu og þurfti að fara í snemmbúið bað. Giordan Watson skoraði 5 stig í röð fyrir Grindavík og kom þeim í 64-63 þegar 2 mínútur voru eftir. Liðin skiptust á því að deila með sér forystunni og var mikill spenna í húsinu. Keith Cothran fór á vítalínuna fyrir Stjöruna, tveimur stigum undir og hafði séns á að jafna metinn. Hann klúðraði báðum skotunum og Grindavík náði frákastinu. Við það varð möguleiki Stjörnunar nánast enginn. Grindvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni og innbyrtu að lokum 3. stiga sigur, 68-71.

Það er hálf ótrúlegt að lið með aðeins 31% nýtingu í teignum, 68% á vítalínunni og 29% fyrir utan vinni sigur í svona leik. Það var gífurleg barátta Suðurnesjapilta undir körfunni sem skilaði sigrinum, ásamt frábærum varnarleik. Grindvíkinar taka 23 sóknarfráköst í leiknum, 10 fleiri en Stjörnumenn. Leikmenn Stjörnunar virtust værukærir þegar þeir höfðu 7 stiga forskot í 4. leikhluta og hleyptu Grindvíkingum aftur inní leikinn á stuttum tíma. Það er ljóst að Garðbæingar söknuðu Fannars fyrirliða en hann á enn eftir að taka út 1 leik í leikbanni og verður því ekki með á mánudaginn þegar þessi lið mætast í þriðja sinn. Vinni Grindavík þann leik munu þeir leika til úrslita en Stjarnan getur knúið fram 4. leikinn með sigri. Það er því ljóst að það verður allt undir á mánudaginn.

Stig Stjörnunar: Justin Shouse 16/8 fráköst/6 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 15/6 fráköst, Keith Cothran 14/9 fráköst, Guðjón Lárusson 6, Renato Lindmets 6/10 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Marvin Valdimarsson 6/4 fráköst/5 varin skot, Dagur Kár Jónsson 3, Sigurjón Örn Lárusson 2

Stig Grindavíkur: Giordan Watson 24/6 fráköst/8 stoðsendingar, J’Nathan Bullock 13/10 fráköst, Þorleifur Ólafsson 10/5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/10 fráköst, Ólafur Ólafsson 7, Jóhann Árni Ólafsson 5/6 fráköst, Ryan Pettinella 3/4 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 2.

Sport.is