Grindavík í bikarúrslitin

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík er komið í Höllina! Grindavík lagði Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum bikarsins 93-84. Grindvaík er þar með komið í bikarúrslitin í fjórða skipti á síðustu fimm árum en okkar menn hafa tapað öllum þessum leikjum. Andstæðingarnir að þessu sinni verða ÍR-ingar. 

Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur, mikillh hraði einkenndi fyrri hálfleik en í þeim seinni var Grindavík yfirleitt skrefinu á undan en Þórsarar eru seigir og gáfust aldrei upp. Um miðbik síða leikhlutans settu Grindvíkingarnir Jóhann Árni Ólafsson og Ólafur Ólafsson niður mikilvægar þriggja stiga körfur sem gáfu  okkar mönnum 12 stiga forystu. 

Hjá Grindavík var Ómar Örn Sævarsson stigahæstur með 19 stig og 16 fráköst, þar af 9 í sókn,  Lewis Clinch var með 23 stig og 13 stoðsendingar, Sigurður Þorsteinsson með 26 stig og 11 fráköst og Ólafur Ólafsson með 11 stig.

Sverrir Þór þjálfari Grindavíkur: Voru allir að leggja í púkkið í kvöld

Sverrir Þór Sverrison var að vonum ánægður með að hafa tryggt sér sæti í úrslitaleiknum í leikslok. Grindavíkurliðið fór á fljúgandi start í upphafi leiks og virtust geta skorað að vild. Átti Sverrir von á þessari byrjun?

“Ég vonaðist auðvitað eftir þessari byrjun, að allt myndi smella. En þrátt fyrir að við höfum skorað mikið í fyrri hálfleik (59 stig) þá er ég mjög ósáttur með hvað þeir skoruðu mikið á okkur. Við löguðum það í seinni hálfleik og það var eiginlega lykillinn að sigrinum, við hertum á vörninni.”

Grindvíkingar eru með breiðan hóp og fengu gott framlag frá mörgum mönnum.

“Ómar hefur verið frábær undanfarið fyrir okkur og hann hélt því áfram í kvöld. Hann er mikill karakter og var mikilvægur fyrir okkur á báðum endum vallarins, öskrandi menn áfram. En það voru fleiri góðir hjá mér í kvöld. Óli Óla spilaði af miklum krafti, Siggi var frábær og Lewis líka.

Jóhann Ólafs spilaði frábæra vörn á kanann þeirra í seinni hálfleik. Jói náði að slökkva á honum eftir að við vorum í veseni með hann í fyrri hálfleik. Það voru bara allir að leggja í púkkið.”

En hvernig líst Sverri á að mæta liði ÍR í úrslitaleiknum í Höllinni?

“Mér líst mjög vel á að fá ÍR í Höllinni. Mér finnst gaman að mæta Örvari Kristjáns vini mínum(þjálfara ÍR). Við töpuðum fyrir þeim núna um daginn og við þurfum að hitta á góðan leik eins og í kvöld til að vinna þá. Við vorum lélegir gegn þeim síðast og þurfum að spila betur til að landa bikarnum. En ég tel okkur eiga mikið inni, sérstaklega í bikarúrslitaleik. Þetta verður gaman!” sagði Sverrir sigurreifur að lokum og spenntur fyrir úrslitaleiknum í Höllinni (Vísir).