Grindavík fer heldur betur með góðan jólapakka með sér í jólafrí frá Domino’s deild karla þessi jólin en þegar deildin er hálfnuð situr Grindavík í 4. sæti deildarinnar. Okkar menn unnu góðan útisigur á Skallagrímsmönnum í Borgarnesi í gær, 80-95, og hafa nú unnið 7 leiki en tapað 4.
Karfan.is gerði leiknum skil:
„Grindavík verður í fjórða sæti Dominos deildar karla yfir jólahátíðina. Þetta tryggði liðið með sigri á Skallagrím í Borgarnesi í kvöld.
Gestirnir náðu fljótt forystunni í fyrsta leikhluta og ætluðu sér greinilega í gegnum Hvalfjarðargöngin með tvö stig í farteskinu. Grindavík leiddi nánast allan fyrri hálfleikinn en Skallagrímur var aldrei langt á eftir. Heimamenn komust svo fyrsta skiptið yfir í leiknum þegar flautað var til hálfleiks 43-42.
Stemmningin og neistinn sem einkennt hefur Skallagrím hingað til í Dominos deildinni var ekki til staðar í seinni hálfleik. Grindavík seig fram úr þar sem frábær skotnýting Ólafs Ólafssonar var mikilvæg auk gríðarlega stöðugrar frammistöðu liðsins.
Grindavík jók svo forystu sína hægt og bítandi með leiknum og hafði að lokum góðan fimmtán stiga sigur. Skallagrímur tapaði því fyrsta heimaleik sínum í nærri tvo mánuði og Grindavík komst aftur á sigurbraut eftir tap gegn Tindastól í síðustu umferð.“