Grindavík í 2-0 eftir glæsilegan sigur á Haukum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík er komið í óskastöðu í einvíginu gegn Haukum eftir glæsilegan sigur í Mustad-höllinni á laugardaginn. Grindavíkurkonur mættu afar ákveðnar til leiks og voru í bílstjórasætinu nánast frá fyrstu mínútu. Lokatölur leiksins urðu 85-71 og Grindavík getur því klárað einvígið í Hafnarfirði annað kvöld.

Undirritaður var á leiknum og fjallaði um hann, en umfjöllunin birtist fyrst hjá samstarfsaðilum okkar hjá karfan.is:

Frábær stemmning í Mustad-höllinni

Það hefur sennilega ekki verið jafn vel mætt í stúkuna í Mustad höllinni í kvöld í langan tíma og stemmingin minnti óneitanlega á gamla tíma. Grindvískir körfuboltaáhangendur hafa fylkt sér rækilega á bakvið stelpurnar sínar eftir að strákarnir fóru snemma í frí annað árið í röð, og eru þær eflaust þakklátar fyrir þennan góða stuðning. Stúkan var virkilega lifandi og góð tilbreyting að heyra eitthvað annað en tuð úr henni. Gulir og glaðir studdu Grindvíkingar vel við bakið á sínu liði í leiknum.

Eftir að hafa farið lausar við alla pressu inn í einvígið gegn Haukum var eflaust einhver pressa búin að koma sér fyrir í undirmeðvitund Grindvíkinga fyrir leikinn í kvöld enda heimavöllurinn undir. Sigur í kvöld myndi koma Grindavík í yfirburða stöðu í einvíginu en tap myndi í raun núlla út sigurinn í fyrsta leiknum. Það var þó ekki nema rétt í blábyrjun sem einhver pressa virtist vera á Grindvíkingum, liðin fóru rólega af stað en eftir 4 mínútur var staðan orðin 10-3 og tónninn sleginn fyrir það sem koma skyldi. Haukarnir voru þó ekki alveg tilbúnir að gefast upp strax og staðan 15-12 eftir fyrstu 10 mínúturnar.

Annar leikhluti var aftur á móti eign Grindavíkur frá A-Ö og þegar flautað var til hálfleiks var munurinn orðinn 21 stig, staðan 46-25. Meðan að Grindvíkingar léku við hvern sinn fingur voru Haukarnir á hælunum. Það gekk fátt upp hjá þeim og eini leikmaðurinn með lífsmarki var Helena sem var komin með 13 stig. Skotnýting Hauka var afleit, aðeins 26,3% og ekki nema 8,3% í þriggja, 1 karfa í 12 tilraun, sem varð raunar eini þristurinn sem þær settu í öllum leiknum! Á meðan voru Grindvíkurkonur búnar að setja 7 þrista í 17 tilraunum, og þar af voru þær Björg, Ingunn og Petrúnella allar 2/3 fyrir utan. Whitney Frazier var stigahæst Grindavíkurkvenna í hálfleik, með 12 stig og 9 fráköst.

Í leiknum í Hafnarfirði voru Grindavíkingar einmitt að hitta afar illa í fyrri hálfleik en komu sterkar til baka í seinni. Það sama var ekki uppá teningnum hjá Haukum í kvöld. Þó svo að munurinn hafi aðeins minnkað komust þær aldrei nær en 12 stig og Grindvíkingar kláruðu leikinn nokkuð örugglega, 85-71 þar sem sigurinn var í raun aldrei í hættu eftir fyrstu 3-4 mínúturnar. Flæðið í sóknarleik Grindavíkur var virkilega gott og margir að leggja stig í púkkið en Frazier var þó stigahæst með 24 stig og 14 fráköst. Varnarlega fóru Grindvíkingar á kostum, spiluðu þétta og kæfandi vörn á Haukana með þær Ingunni Emblu og Petrúnellu í broddi fylkingar.

Helena var í raun eini leikmaður Hauka sem komst eitthvað áleiðis gegn vörn Grindavíkur, og skoraði heil 36 stig. Nokkur þeirra komu úr galopnum færum þar sem hún var svo vel staðsett að það var engu líkara en Ruud Van Nistelroy væri mættur í Mustad höllina. En upphaf og endir alls sóknarleiks Hauka lá hjá Helenu í þessum leik og það kann aldrei góðri lukku að stýra fyrir nokkurt lið að einn leikmaður skori helminginn af stigum þess. Helena var mætt til Grindavíkur kl. 09:00 í morgun til að þjálfa og mögulega orðin eilítið lúin þegar kom að leiknum. Kannski hefði hún náð að draga vagninn til sigurs úthvíld, en Haukar verða einfaldlega að fá meira framlag frá fleiri leikmönnum ef sóparnir eiga ekki að fara á loft á þriðjudaginn. Haukar virðast vera laskaðir og enn að ná áttum eftir að Chelsie Schweers var send heim og þjálfarateymið stokkað upp.

Grindvíkingar aftur á móti eru að toppa á hárréttum tíma. Eftir að hafa gengið í gegnum mikil meiðsli og forföll á tímabilinu eru allir leikmenn liðsins heilir nema einn og liðið virðist vera búið að stilla saman alla strengi. Fyrr í vetur voru Grindavíkurkonur svo fáliðaðar að allir varamennirnir voru grunnskólanemendur en nú væri hægt að stilla upp tveimur háklassa byrjunarliðum og eiga samt afgang.

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Skúli Sig

Umfjöllun – Siggeir F. Ævarsson