Grindavík ekki í vandræðum með Tindastól

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík skellti Tindastóli 4-1 í 1. deild karla og heldur því toppsæti sínu í deildinni. Jóhann Helgason fyrirliði var aftur kominn í lið Grindavíkur eftir að hafa misst úr tvo síðustu leiki liðsins vegna meiðsla og þá var Alexander Magnússon einnig í byrjunarliðinu en hann er að komast í gang eftir erfið meiðsli. Nýjasti liðsmaðurinn Denis Sytnik var á varamannabekknum.

Grindvíkingar höfðu talsverða yfirburði í leiknum. Stefán Þór Pálsson kom Grindavík yfir og Juraj Grizelj skoraði annað mark á 21. mínútu. Atli Arnarson minnkaði muninn fyrir Tindastól og staðan 2-1 í háflleik. Jóhann Helgason skoraði gullfallegt mark fyrir Grindavík á 62. mínútu og Óli Baldur Bjaranson, sem einnig var í byrjunarliðinu, skoraði fjórða markið.

Grindavík er á toppi deildarinnar með níu stig en Haukar og BÍ/Bolungarvík eru einnig með sama stigafjölda.