Grindavík trónir eitt liða á toppnum í úrvalsdeild karla í körfubolta eftir öruggan 20 stiga sigur á Tindastóli 85-65. Það er ljóst að nú stefnir í afar spennandi körfuboltavertíð hjá strákunum sem munu gera harða atlögu að þeim titlum sem eru í boði.
Grindvíkingar lögðu grunninn að góðum sigri sínum strax í fyrsta leikhluta þar sem liðið hafði betur 29-13. Þrátt fyrir ágætist spretti gestanna frá Sauðarkróki í öðrum leikhluta, þar sem Tindastóll gerði 23 stig gegn 18 stigum heimamanna náðu gestirnir ekki að ógna forystu Grindvíkinga að ráði. Staðan eftir fyrstu tvo leikhlutana 47-36 fyrir heimamenn. Meira jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta þar sem bæði lið sýndu á köflum ágætis takta. Þar gerðu heimamenn 18 stig gegn 16 stigum Tindastóls og staðan því 65-52 þegar fjórði og síðasti leikhlutinn var flautaður af stað. Grindvíkingar voru skynsamir í síðasta leikhlutanum og tryggðu sér í leiðinni góðan 20 stiga sigur, lokatölur 85-65. Grindvíkingar eru því einir á toppi deildarinnar með átta stig, eða fullt hús stiga eftir fjóra leiki en Tindastóll hefur tapað öllum leikjum sínum til þessa.