Grindavík deildarmeistari!

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

„Þetta er frábær tilfinning. Við getum fagnað örlítið en við eigum mikla vinnu fyrir höndum. Það er úrslitakeppnin sem telur. Þetta er samt flottur árangur,” sagði J’Nathan Bullock leikmaður Grindavíkur eftir sigur á Íslandsmeisturum KR 87-85. Með sigrinum tryggði Grindavík sér deildarmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla í körfubolta þrátt fyrir að enn séu fjórar umferðir eftir!

Eftir jafnan lokafjórðung kom Watson heimamönnum í 80-77 með þriggja stiga skoti og þakið ætlaði af húsinu. KR-ingar gleymdu Kananum galopnum og hann þakkaði fyrir sig. Skarphéðinn Ingason svaraði á sama hátt úr galopnu færi. Staðan 80-80 og engin leið að spá fyrir um framhaldið.

Hreggviður kom KR þremur yfir 84-81 og rúm mínúta eftir. Aftur setti Watson þrist, nú undir pressu, og staðan jöfn. KR-ingar náðu ekki almennilegu skoti í sinni sókn og brutu í kjölfarið á Bullock.

Bullock setti bæði skotin ofan í og heimamenn með tvö stig á KR, 86-84. Grindvíkingar brutu viljandi á Brown þegar átta sekúndur voru eftir og KR þurfti að stilla upp á nýtt í síðustu sókn.

Brown fékk boltann í hendurnar, keyrði að körfunni og brotið á honum í skotinu. Hann skoraði aðeins úr fyrra skoti sínu og sigurinn var heimamanna og deildarmeistaratitillinn um leið. J’Nathan Bullock bætti við stigi af vítalínunni þegar ein sekúnda lifði leiks. Lokatölurnar 87-85.

Bæði lið eiga hrós skilið fyrir flottan körfubolta í gærkvöld. Stigaskor var töluvert dreifðara hjá heimamönnum en gengur og gerist enda Watson og Bullock hvor um sig vanir því að salla niður stigunum. Liðsandinn virðist frábær hjá heimamönnum sem hafa farið á kostum í vetur og langlíklegasta liðið til að fara alla leið eins og staðan er núna.

Það verður ekki tekið af KR-ingum að þeir spiluðu góðan leik. Undirritaður sá viðureign þeirra í Keflavík fyrir skömmu og var allt annað að sjá til liðsins. Leikmenn unnu sem einn þótt Joshua Brown hafi á köflum farið sínar eigin leiðir. Heilt yfir átti hann þó flottan leik eins og flestir KR-ingarnir sem minntu á sig í kvöld.

Að lokum verður að minnast á vítanýtingu beggja liða sem var hlægileg eða aðeins rúmlega 50 prósent. Shaquille O’Neal er einn fárra sem hefði verið stoltur af nýtingu sem þessari.

Grindavík-KR 87-85 (22-19, 18-18, 23-30, 24-18)

Grindavík: Giordan Watson 25/4 fráköst, J’Nathan Bullock 23/9 fráköst, Ryan Pettinella 9/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 9, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/6 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 5/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 3, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Páll Axel Vilbergsson 2/7 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Ármann Vilbergsson 0.

Bullock: Fögnum með því að spila saman tölvuleiki

J’Nathan Bullock sagði andrúmsloftið í gærkvöld hafa minnt hann á úrslitakeppni.

„Bæði lið gáfu allt sitt og meira er ekki hægt að biðja um af okkur leikmönnunum,” sagði Bullock sem setti 23 stig.

„Fólkið, liðsfélagar og þjálfarar eru vingjarnlegir og það er fjölskylduandrúmsloft. Það er alltaf gott að spila í svoleiðis umhverfi,” sagði Bullock sem kippir sér ekki upp við veðrið. Hann kunni á kuldann enda frá Michigan-ríki í Bandaríkjunum.

Um möguleika Grindavíkur í úrslitakeppninni sagði Bullock:

„Við eigum góða möguleika og ætlum okkur langt. Við styðjum hver við annan, það er góð eining og óvenjulegt hversu hratt liðið hefur slípast saman,” sagði Bullock sem ætlaði að telja blaðamanni trú um að liðsfélagarnir ætluðu að fagna titlinum með því að spila saman tölvuleiki.

„Það verður bara Playstation og svo heim að einbeita sér að körfuboltanum,” sagði Bullock sem hló þegar blaðamaður gekk á hann. Eitthvað meira hlyti að standa til.

„Ég segi ekkert meira,” sagði Bullock og skellihló í viðtali við Vísi.