Grindavík áfram í bikarnum en ÍG úr leik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Tveir leikir í 32-liða úrslitum í bikarkeppni karla í körfuknattleik fóru fram í Grindavík um helgina. Á laugardaginn tóku ÍG menn á móti hávaxnasta manni Íslands og Þór frá Þorlákshöfn og á sunnudaginn var svo úrvalsdeildarslagur þar sem FSu sótti Grindavík heim. 

Þrátt fyrir hetjulega baráttu áttu ÍG aldrei möguleika í gestina frá Þorlákshöfn, enda umtalsverður getumunur á 2. deild og úrvalsdeild. Lokatölur í leiknum urðu 67-121.

Á sunnudaginn blés stjórn körfuknattleiksdeildarinnar svo til pylsuveislu fyrir stuðningsmenn Grindavíkur fyrir leik. Hvort hún hafði úrslitaáhrif skal ósagt látið en Grindavík fór í það minnsta með nokkuð þægilegan sigur af hólmi, 91-71 þar sem Eric Wise var drjúgur í stigaskorun og setti 32 stig, fyrir utan 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Sigurbjörn Dagbjartsson gerði leiknum góð skil fyrir karfan.is:

„Undirritaður átti von á jöfnum og spennandi leik á milli Grindvíkinga og FSu-manna í 32-liða-úrslitum bikarkeppninar í kvöld en eftir jafnan 1. leikhluta skyldu leiðir og Grindavík landaði öruggum og átakalitlum sigri, 91-71.

Óttalegt slen var yfir leikmönnum í 1. leikhluta en að honum loknum var jafnt, 18-18. Páll Axel dró skorunarvagninn fyrir heimamenn en gestirnir skiptu sínum stigum tiltölulega jafnt á milli sín. Eric Wise sem byrjaði hálf sofandi bættist svo á vagninn með Paxel í 2. leikhluta og Grindvíkingar skoruðu 23 stig í honum og hertu á vörninni svo FSu skoraði bara 16 stig í honum og því leiddu heimamenn með 7 stigum í hálfleik, 41-34. Paxel var kominn með 13 stig í hálfleik og Eric 10 en skorið dreifðist víðar hjá gestunum.

Strax í seinni hálfleik settu svo heimamenn í fluggírinn og réðust úrslit í raun í 3. leikhluta sem heimamenn unnu 28-13. Báðar tölur segja í raun allt sem segja þarf um FSu, 28 stig fengin á sig í einum fjórðungi eru auðvitað allt of mikið og 13 stig skoruð jafn slæmt á hinum endanum. Svona kokteill bragðast sjaldnast eða aldrei vel. Síðasti fjórðungurinn var því bara formsatriði að klára og mununurinn hélst nánast sá sami.

Hversu mikla ályktun hægt er að draga af frammistöðu heimamanna er erfitt að segja til um en mótstaðan var bara ekki það mikil. Eric Wise lítur bara ansi vel út en hann virkaði hálf áhugalaus til að byrja með en í seinni hálfleik héldu honum engin bönd og skoraði hann þá nánast að vild. Mér segir svo hugur til um að þetta sé ekta týpa í deildina okkar en bæði er hann með öflugar hreyfingar inn í teig og getur sett boltann í gólfið. Meira að segja setti hann 1 af 2 þriggjastiga skotum sínum niður svo hann getur getur skorað. Sömuleiðis spilaði hann hörku vörn og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Paxel var öflugur í fyrri hálfleik eins og áður sagði en hafði sig minna í frammi í þeim seinni. Jón Axel var öflugur í seinni hálfleik hvað stigaskorun varðar og endaði með 18 stig.

FSu-menn sem byrjuðu undirbúningstímabilið af miklum krafti og litu vel út, virðast vera í vandræðum í sínum leik. Alla stemningu og baráttu virðist vanta í liðið og ógnuðu þeir heimamönnum aldrei neitt að ráði í þessum leik. Þeir eru flott mannaðir og ættu að geta gert mun betur en eitthvað virðist vanta. Gunnar Ingi Harðarson var sá eini með einhverju lífsmarki og hitti hann vel, setti m.a. 6 af 12 þriggjastiga skotum sínum niður. Erlendu leikmenn FSu-manna voru svo vægast sagt slakir í kvöld og kæmi mér ekki á óvart þótt Christopher Anderson fái frímerkið fræga á bossann sinn fljótlega. Ég sá youtube-„highlight” af þessum Anderson í haust og leist mér mjög vel á kauða og sá hann fyrir mér sem þessa ekta týpu sem getur gert vel í deildinni okkar og eflaust á hann miklu meira inni en hann sýndi í kvöld en þá verður hann líka að fara gera það ef hann á ekki að kveðja Ísland á næstunni. FSu þarf á því að halda að hafa öflugan Bandaríkjamann innan sinna raða ef ekki á illa að fara í vetur.

Grindavík því komið áfram í bikarnum en Fsu getur einbeitt sér að því að landa fyrsta sigrinum í deildinni.“

Tölfræði leiksins