Grindavík gerði gríðarlega góða ferð vestur í bæ í gærkvöldi þegar strákarnir lögðu KR, 0-1. Grindvíkingar sýndu mikla baráttu og agaðan leik þar sem þeir fylgdu leikskipulagi Óla Stefáns út í ystu æsar. Þeir gáfu fá færi á sér og þau fáu færi KR sem litu dagsins ljós varði Kristijan Jajalo örugglega.
Grindvíkingar voru hraðir og ógnandi í sínum sóknaraðgerðum með hinn sjóðheita Andra Rúnar Bjarnason fremstan í flokki. Það stóð þó eitthvað á mörkunum en á 88. mínútu fiskaði téður Andri víti sem hann skoraði sjálfur úr og reyndist það vera sigurmark leiksins. Andri er nú búinn að skora 6 mörk í jafnmörgum leikjum og hafa öll mörkin tryggt Grindavík stig!
Eftir þennan sigur er Grindavík í 1.-3. sæti Pepsi deildar karla, með 13 stig, eða jafnmörg og Stjarnan og Valur.
Næsti leikur Grindavíkur er heimaleikur gegn FH miðvikudaginn 14. júní
Umfjöllun og viðtöl á Fótbolti.net
Myndina með þessari frétt tók Gunnar Ólafur Ragnarsson