Grátleg tap gegn Keflavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík tapaði fyrir grönnum sínum í Keflavík 2-1 í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld. Keflavíkingar skoruðu sigurmarkið í blálokin og Grindavík enn í neðsta sæti með 6 stig. Þar fyrir ofan kemur Selfoss með 8 og svo Fram með 12 en Grindavík tekur á móti Fram í næstu umferð.

 

Óskar Pétursson hélt Grindavík á floti í fyrri hálfleik með frábærri markvörslu en reyndar átti Scott Ramsey skot í stöngina. Keflvíkingar komust yfir á 60. mín. en Pape Mamadou Faye jafnaði metin fyrir Grindavík með góðu skallamarki. Allt stefndi í jafntefli en varamaðurinn Magnús Sverri Þorsteinsson skoraði sigurmark Keflvíkinga á 88. mínútu.

Guðjón: Hellingur af stigum eftir í pottinum

„Ég er svekktur og óánægður að hafa fengið á okkur sigurmark í blálokin. Maðurinn hleypur upp völlinn óáreittur og klárar leikinn fyrir þá. Þetta var ekki góð varnarvinna hjá okkar mönnum og algjör klaufaskapur,” sagði Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindavíkur við Vísi.

„Við náðum að jafna leikinn og taldi ég okkur í góðum möguleika til þess að klára leikinn í kjölfarið. Það gekk ekki eftir og er ég gríðarlega svekktur,” bætti Guðjón við.

„Það er hellingur af stigum eftir í pottinum. Það eru þrjú lið sem virðast ætla að vera á botninum og höfum við ennþá trú á þessu. Menn verða hinsvegar að hafa trú á sjálfum sér og liðsfélögum sínum og er það fyrst og fremst það sem við þurfum að bæta,” sagði Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindavíkur í leikslok.

Pape: Fáum á okkur aulamark í lokin

„Þetta er mjög svekkjandi. Við vorum allir að leggja okkur fram en þeir náðu aulamarki í lokin sem vinnur leikinn fyrir þá. Við erum búnir að vera óheppnir í mörgum leikjum í sumar en við erum að reyna að snúa blaðinu við.,” sagði Pape.

Gengið liðsins hefur verið skelfilegt það sem af er sumri en liðið á þó undanúrslitaleik gegn KR í Borgunar-bikarnum í vikunni. Pape sagði sína menn vera tilbúna í þann slag

„Við erum spenntir fyrir leiknum á fimmtudaginn og erum við óhræddir við KR-liðið. Við förum í þann leik til þess að vinna hann,” sagði Pape Mamadou Faye, leikmaður Grindavíkur í leikslok.

 

Mynd/Víkurfréttir: Pape jafnar metin fyrir Grindavík.