Golfskálinn ekki í eigu GG?

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Í skýrslu formanns á aðalfundi Golfklúbbs Grindavíkur fyrir skömmu kom fram að í haust bárust stjórn GG þær fréttir að núverandi golfskáli er ekki skráður í eigu golfklúbbsins en árið 2008 færði Fjársýsla ríkisins húsnæðið undir sína eign. Eins og flestir félagar vita þá hafði Golfklúbburinn fengið húsnæðið að gjöf frá ríkinu og byggði núverandi golfskála upp með sínu fjármagni og sjálfboðavinnu. 

„Því miður er ekki til neinn samningur sem sannar okkar eignarhald á skálanum og því erfitt að sækja það mál. Þó eru aðilar á vegum golfklúbbsins að skoða þau mál fyrir okkur. Vonumst við til að farsæl lausn fáist í þetta vandræðamál og eignarhaldið verið ótvírætt okkar. Á meðan það er óljóst er fásinna að fara í viðgerðir eða endurbætur á húsnæðinu,” sagði Páll Erlingsson í skýrslu sinni.

Þá fjallaði Páll um framkvæmdir síðasta árs:

„Það er með ólíkindum hversu mikið við höfum náð að framkvæma á árinu 2011, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að Grindavíkurbær greiddi einungis 1.5 milljónir í stækkunarstyrk á árinu og ákvað að fresta síðustu styrktargreiðslunum. Enn á eftir að greiða út 5.3 milljónir af styrknum.  Keypt var lítil beltagrafa á 1.2 milljónir króna og vinnubíll fyrir völlinn á 1 milljón, auk pallbíls sem IAV seldi okkur með miklum afslætti á 550 þúsund. Þess vegna má segja að það sé kraftaverki nær að við höfum náð að halda úti áformum okkar í stækkunarmálum og gott betur án opinbers fjármagns á þessu ári.

Einnig má geta þess að við að hluta til endurgreitt þær tæpu 7 milljónir króna sem fengnar voru til að greiða niður óhagstæð langtímalán í lok árs 2008 auk þess að greiða tapið sem varð á peningamarkssjóðnum að upphæð rúmlega 5 milljónum. Samtals um 12 milljónir króna. Það náum við með hagræðingu, vinnuframlagi ófárra manna við stækkunarframkvæmdirnar og afgangi af rekstrarfé. 

Við höfum náð að framkvæma og vinna vel úr því fjármagni sem okkur hefur verið ætlað, þó enn sé nokkuð eftir á leið okkar. Má þar nefna sandgryfjur, ný teigaskilti, bekki og slíkt sem er á teigum ásamt fleiri atriðum sem munu koma nánar í ljós. Reiknast til að kostnaður við fullgerðan völlinn muni fara fram úr 51 milljón, þar sem áætlun gerir ráð fyrir um 12 milljón króna viðbótarkostnaði á árunum 2012-13.”

Skýrslu formanns GG má í heild sinni lesa hér.