Góður sigur í Þorlákshöfn

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar gerðu góða ferð eftir Suðurstrandarveginum á föstudagskvöldið þegar þeir sóttu sigur til Þorlákshafnar. Eric Wise var öflugur undir körfunni gegn hávaxnasta leikmanni deildarinnar, Ragga Nat, og skoraði 30 stig. Lokatölur leikins urðu 74-84 Grindvíkingum í vil. Karfan.is fjallaði um leikinn:

„Í kvöld tókust Þór Þorlákshöfn og Grindavík á í Icelandic Glacial Höllinni í 7. umferð Domino´s deildar karla. Gestirnir frá Grindavík byrjuðu betur og komust í 16-4 en Þórsarar virtust ekki vera alveg vaknaðir fyrstu mínútur leiksins, þeir gáfu þó í og náðu forystu, 19-17, rétt fyrir lok fyrsta fjórðungs.

Meginpart annars leikhluta voru Þórsarar betri aðilinn en þeir voru með 11 stiga forystu þegar u.þ.b. 4 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en þá gáfu Grindvíkingar í og höfðu þeir 1 stigs forskot, 39-38, þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik.

Grindvíkingar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og var forysta þeirra í kringum 10 stig mestallann þriðja leikhluta, en að honum loknum stóðu leikar 60-51 Grindavík í vil.

Í fjórða leikhluta söxuðu heimamenn í Þór hægt og bítandi á forskot gestanna og náðu leiknum nokkrum sinnum niður í 2ja stiga mun, en alltaf þegar Þórsarar virtust vera að ná yfirhöndinni náðu Grindvíkingar að svara með körfu, en fremstur þar í flokki var Eric Wise sem var Þórsurum erfiður viðureignar. Fór svo að lokum að Grindvíkingar náðu að slíta sig frá heimamönnum og fóru með sigur af hólmi 84-74. Með sigrinum komst lið Grindavíkur upp að hlið Þórs í 4-7. sæti með 8 stig.

Aðspurður hvað hafi farið úrskeiðis hjá Þór í leiknum sagði Halldór Garðar Hermannsson, leikmaður Þórs, að Þórsarar hafi einfaldlega verið flata í aðgerðum sínum bæði sóknar og varnarlega.

Jóhann Árni Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, sagði að Grindvíkingar hafi gert vel í því að stoppa áhlaup Þórsara, sem séu mikið stemningslið, og það hafi verið stór partur af því að Grindvíkingar hafi haft betur í leiknum.“ 

Tölfræði leiksins