Góður sigur hjá stelpunum á Skallagrími

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Stelpurnar í 1. deild kvenna í körfubolta spiluðu í gær sinn sjötta leik í 1. deild kvenna . Í þetta sinn var það Skallagrímur úr Borganesi sem var í heimsókn í Röstinni. Leikurinn fór vel af stað og var mikil grimmd í Grindavíkurliðinu. Góð vörn og mikil ákefð einkenndi leik liðsins og margar auðveldar körfur fylgdu í kjölfarið. Ingibjörg Sigurðardóttir kom mjög sterk af bekknum og er að stimpla sig rækilega inn á sínu fyrsta ári í meistaraflokki.  

Um miðjan síðari hálfleik skipti Skallagrímur yfir í 3-2 svæðisvörn og við það riðlaðist leikur stelpnanna. Hik kom í sóknarleikinn og við það slaknaði aðeins á vörninni. Í hálfleik var staðan 46-25 fyrir Grindavíkurstelpurnar. Skallagrímur hélt áfram að spila 3-2 svæðisvörn í síðari hálfleik. Eftir að hafa farið yfir málin í hálfleik gekk betur á móti svæðinu og opin skot komu í kippum. Ekki gekk alveg nógu vel að nýta þessi skot en það kemur. Leikurinn spilaðist nokkuð vel í síðari hálfleik og vannst góður sigur. Lokatölur 91-62 Grindavík í vil og situr liðið sem fastast á toppnum.

Liðið á mikið inni og getur gert miki mun betur þrátt fyrir góðan sigur. Ingibjörg Sigurðardóttir var stigahæst og gerði heil 30 stig (6/9 í 3-stiga), Yrsa gerði 17 stig, tók 10 fráköst þar af 9 í sókn og gaf 6 stoðsendingar, Jóhanna Rún og Berglind Anna gerðu 10 stig hver.

Eins og áður segir eiga stelpurnar mikið inni. Næsti leikur er toppslagur við Stjörnuna í Röstinni. Sá leikur er Laugardaginn 10 des. Hvetjum við alla til að leggja leið sína í Röstina og styðja stepurnar til sigurs.