Góður sigur fyrir austan og Grindavík klifrar upp töfluna

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Eftir fremur rysjótta byrjun á fótboltasumrinu hjá strákunum í 1. deildinni hefur liðið tekið hressilega við sér og stigin tekið að safnast í sarpinn í síðustu leikjum. Í gær hélt liðið austur á firði þar sem lið Fjarðabyggðar var sótt heim á Eskjuvelli á Eskifirði. Þegar liðið mættust í Grindavík í vor fóru Austfirðingar með 1-3 sigur af hólmi og höfðu okkar menn því harma að hefna. Fjarðabyggð hafði verið á góðu skriði í deildinni og sátu í 2. sæti en okkar menn mörruðu um miðja deild.  

Það var því ljóst að ef okkar menn ætluðu sér ekki að missa af Pepsi-lestinni urðu þeir helst að sækja öll stigin í þessum leik og er skemmst að segja frá því að þeir fóru nokkuð létt með það og rúlluðu yfir heimamenn, 0-3. Fyrsta markið var nokkuð óvenjulegt, en það skoraði Jobbi beint úr hornspyrnu! Nokkuð hvass vindur var á Eskifirði og nýtti Jobbi sér Magnus áhrifin til hins ýtrasta og skrúfaði boltann í markið beint úr hornspyrnunni. 

Undir lok fyrri hálfleiks fékk svo leikmaður Fjarðabyggðar og fyrrum leikmaður Grindavíkur, Jóhann R. Benediktsson, að líta rauða spjaldið og léku heimamenn því einum færri það sem eftir lifði leiksins. Eftirleikurinn varð því nokkuð auðveldur fyrir Grindvíkinga sem kláruðu leikinn 0-3. Við þennan sigur fór Grindavík upp í 5. sætið og eru núna 6 stigum frá 2. sætinu og sæti í Pepsi deildinni að ári.

Umfjöllun Fótbolta.net um leikinn:

Fjarðabyggð 0 – 3 Grindavík

0-1 Jósef Kristinn Jósefsson (’18)
0-2 Alejandro Jesus Blzquez Hernandez (’68)
0-3 Alex Freyr Hilmarsson (’94)
Rautt spjald: Jóhann Ragnar Benediktsson , Fjarðabyggð (’44)

Fjarðabyggð mistókst að halda 2. sætinu í 1. deild karla þegar Grindavík kom í heimsókn og rúllaði yfir þá á Eskifirði.

Jósef Kristinn Jósefsson skoraði mark beint úr hornspyrnu á 18. mínútu leiksins og það var ekki til að bæta það fyrir heimamenn þegar Jóhann Ragnar Benediktsson fékk að líta rauða spjaldið á lokamínútu fyrri hálfleiks fyrir að hrækja í átt að Magnúsi Björgvinssyni framherja Grindavíkur.

Spánverjinn Alejandro Hernandez bætti öðru marki við fyrir Grindavík um miðjan síðari hálfleikinn eftir stoðsendingu frá Alex Frey Hilmarssyni.

Alex Freyr skoraði svo þriðja markið í uppbótartíma og lokastaðan 3-0 fyrir Grindavík.

Grindavík komið í 5. sæti deildarinnar með 20 stig og fjórum stigum frá Fjarðabyggð í 3. sætinu.