Góður árangur Grindvíkinga á júdómóti í Bretlandi – Gunnar með gull

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Judó

Fyrr í mánuðinum sögðum við frá því að nokkrir fílelfdir grindvískir júdókappar væru á leið í víking til Bretlandseyja . Mótið fór fram núna um helgina og skemmst er frá því að segja að okkar menn stóðu sig allir með prýði, þó enginn betur en Gunnar Jóhannsson sem vann gull í sínum flokki.

Í fréttatilkynningu frá Júdósambandi Íslands segir:

,,Grindvíkingurinn Gunnar Jóhannesson kom sá og sigraði á Southend International í Bretlandi. Gunnar keppti í flokki 40 ára og eldri í mínus 73 kg. Hann sigraði allar sínar glímur nokkuð örugglega.

Fjórir keppendur komu frá Grindavík og stóðu þeir sig allir með sóma. Björn Lúkas lenti í 2. sæti eftir mikla baráttu við sigurvegarann. Guðjón Sveinsson og Aron Snær Arnarsson lentu báðir í 4. sæti í sínum flokkum.
Óhætt er að segja að mikil gróska hafi verið að undanförnu í júdó í Grindavík sem er að skila sér með góðum árangri á mótum.”

Við óskum Gunnari og hinum Grindvíkingunum að sjálfsögðu til hamingju með þennan árangur.