Góð byrjun – Þorleifur í stuði

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík lagði Stjörnuna 83-74 í fyrsta undanúrslitaeinvígi liðanna í úrvalsdeild karla í körfubolta. Þetta var hörku leikur tveggja öflugra liða en vinna þarf 3 leiki til þess að komast í úrlitaleikinn. Það var liðsheild og breidd heimamanna sem tryggði þennan sigur, en þeir leiddu nánast allan leikinn. J’Nathan Bullock átti stórleik fyrir Grindavík og Þorleifur Ólafsson átti einnig frábæran leik.

Grindavík 83-74 Stjarnan (25-18, 13-17, 24-21)

Leikmönnum beggja liða gekk erfiðlega að koma boltanum rétta leið í upphafi leiks og þrátt fyrir gríðarlega reynslu beggja liða, virtust menn vera stressaðir. Grindvíkingar voru þó heldur fyrri til að hrista af sér slenið og náðu 9-3 forystu þegar tæpar 5 mínútur voru liðnar af leiknum. Eftir heldur rólegar upphafsmínútur tóku leikmenn beggja liða sig til og fóru að salla niður þriggja stiga skotunum en héldu Grindvíkingar alltaf sinni nokkurra stiga forystu. Að 1. leikhluta loknum höfðu heimamenn 7 stiga forystu, 25-18 en þeir spiluðu gríðarlega sterka vörn í upphafi leiks og voru Stjörnumenn þvingaðir í erfið skot fyrir utan. Annar leikhluti spilaði mjög svipað og hinn fyrri. Gríðarlega hreyfanleg vörn Grindvíkinga lét Garðbæinga líta illa út í sókninni, en sem betur fer fyrir gestina spiluðu þeir einnig góða vörn og héldu aftur af heimamönnum. Á meðan Garðbæingar héldu áfram að spila sína fantavörn fóru þeir loks að finna glufur á vörn Grindvíkinga og tókst þeim að minnka forskot þeirra niður í 3 stig, 38-35, áður en fyrri hálfleik lauk. Það þarf heldur betur að leita langt aftur til þess að finna leikhluta þar sem Grindvíkingar skoruðu aðeins 13 stig, sem og hálfleik þar sem Stjarnan skorar bara 35 stig. Mikil harka og hreyfanleiki í vörnum beggja liða gerði það að verkum að lítið var skorað en einnig voru menn að kasta boltanum klaufalega frá sér. Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleik var J’Nathan Bullock með 13 stig en hjá Stjörnunni höfðu þeir Justin Shouse og Keith Cothran skorað mest eða 9 stig.

Grindvíkingar hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og voru fljótlega komnir með 8 stiga forystu. Þorleifur Ólafsson mætti heldur betur tilbúinn í átök síðari hálfleiks en hann skoraði 8 af fyrstu 15 stigum heimamanna í 3. leikhluta. Stjörnumenn eru hinsvegar orðnir þaulreyndir í því að lenda undir og unnu þeir sig hægt og bítandi aftur inn í leikinn. Fyrrum-fyrirliði Stjörnunar, Fannar Helgason setti niður þrist og Keith Colthran gerði einnig góða hluti í sókinni. Grindvíkingar héldu þó áfram að gera sína hluti og rúlluðu liðinu, eins og þeim einum er lagið. Nokkur þreytumerki voru þegar farin að sjást á Garðbæingum á meðan það skipti varla máli hver var inná hjá Grindavík. Að þremur leikhlutum loknum höfðu heimamenn 6 stiga forystu, 62-54. Þeirri stöðu eru þó Garðbæingar alls ekki óvanir og var því von á hörku lokaleikhluta. Grindvíkingar skoruðu fyrstu 4 stig 4. leikhluta en Jovan Zdravevski svaraði fyrir Stjörnuna með þrist, hans fyrsta í leiknum en í sjöundu tilraun. J’Nathan Bullock kom heimamönnum í 11 stiga forystu, 70-59, með gullfallegri körfu þegar tæpar 7 mínútur voru til leiksloka. Hann fór afar illa með áðurnefndan Jovan og stóðu áhorfendur upp og hylltu Bullock fyrir vikið. Á þessum tímapunkti náðu heimamenn mest 13 stiga forystu en þá sýndu Stjörnumenn loks sitt rétta andlit. Á örskotsstundu minnkuðu þeir muninn aftur niður í 7 stig, 72-65, með rúmar 5 mínútur á klukkunni. Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindavíkur var ekki sáttu með það að sitt lið væri að slaka á, svo hann tók leikhlé. Jovan Zdravevski var heldur betur vaknaður til lífsins en hann var búinn að skora 9 stig á 5 mínútum. Hinn lágvaxni, Giordan Watson kveikti heldur betur í húsinu þegar hann stal sóknarfrákasti af sofandi Stjörnumönnum og kom heimamönnum í 76-70, með rúmar 2 mínútur eftir. Það var greinilegt að þetta áhlaup Stjörnunnar í 4. leikhluta kostaði of mikla orku því að Grindvíkingar sigldu framúr undir restina. Að lokum fóru þeir með 9 stiga sigur að hólmi, 83-74.

Leikurinn var ekki áferðarfallegur í heild sinni, en þetta var stál í stál. Grindvíkingar náðu góðu forskoti til að byrja með og létu það aldrei af hendi. Þeir nýttu sér breidd sína gríðarlega vel og á tímabili skipti það engu máli hver var inná, þeir léku allir jafn vel. Stjörnumenn létu ótal tækifæri sér úr greipum renna og var t.d. dýrt að Jovan Zdravevski þyrfti 7 tilraunir til að koma boltanum ofan í, í fyrsta skiptið. Eins og Teitur Örlygsson orðaði í viðtali eftir leikinn er enginn örvænting í herbúðum Stjörnunnar en liðin mætast í Garðarbæ á föstudaginn.

Stig Grindavíkur: J’Nathan Bullock 24/10 fráköst, Þorleifur Ólafsson 16/7 fráköst, Giordan Watson 10/4 fráköst/7 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 9, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/8 fráköst, Ryan Pettinella 7/6 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 5/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 3/5 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 2

Sport.is