Glæsilegur bikarsigur á Keflavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindvík tryggði sér sæti í 8 liða úrslitum bikarkeppni KKÍ með glæsilegum fjögurra stiga sigri á Keflvík 72-68. Góður endasprettur Grindvíkinga gerði út um leikinn. Leikurinn var gríðarlega spennandi allan tímann en sigur Grindvíkinga var sanngjarn. 

„Barátta og flottur liðsandi skilaði þessu í kvöld. Við vorum ekki að spila neinn glimrandi körfubolta, það var fullt af töpuðum boltum og við vorum ekki að hitta neitt sérstaklega vel en við héldum alltaf áfram þótt við værum að stöggla inn á milli. Það var það sem þetta snerist um að halda haus allant tímann og klára þetta með sæmd,” sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur við Vísi.

„Það gæti verið að taugarnar hafi spilað inn í hjá mönnum, náttúrulega mikið undir. Bæði liðin mættu hérna í dag og ætluðu sér áfram í bikarnum og ætla sér stóra hluti í vetur. Eflaust hefur spennustigið eitthvað farið með það en það vill oft verða í svona leikjum.”

Þetta var annar leikurinn í röð sem Grindvíkingar spila leik þar sem körfuboltinn er ekki fallegur en vinna samt. Hefur Sverri áhyggjur af stöðu mála? „Nei, í þessum leik fengum við fullt af galopnum skotum sem við hittum ekki en á meðan við getum unnið leiki án þess að vera að skora eitthvað rosalega mikið, því við erum að halda hinu liðinu í lágri stigtölu þá er það fínt. Mér finnst við eiga mjög mikið inni, við eigum að geta gert betur en þetta en á meðan það er að skila sigri þá er það jákvætt. Við erum að vinna í því í hverri viku að bæta okkur og verða betri og toppa þegar líður á tímabilið. Sú vinna heldur bara áfram.”

Sverrir sagðist alveg vita við hverju var að búast af Keflvíkingunum. „Þetta eru mjög svipuð lið og ég bjóst bara við hörkuleik eins og raunin varð. Það kom kannski ekkert á óvart, ég vissi að þeir eru góðir og þeir eru búnir að sýna það í vetur en við höfðum vinninginn í kvöld og það er það sem þetta snýst um. Við erum að fara að mæta þeim aftur eftir nokkra daga þannig að það verður aftur harka í þessu.”

„Við erum komnir áfram í bikarnum og það verður ekki spilað fyrr en í janúar í honum þannig að við verðum að fara að einbeita okkur aftur að deildinni,” sagði Sverrir Þór.

Keflavík-Grindavík 68-72 (16-15, 15-21, 16-11, 21-25)

Keflavík: Michael Craion 22/14 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Darrel Keith Lewis 12/8 fráköst, Gunnar Ólafsson 8/7 fráköst, Valur Orri Valsson 7, Arnar Freyr Jónsson 6, Ragnar Gerald Albertsson 5, Guðmundur Jónsson 3, Hafliði Már Brynjarsson 3, Þröstur Leó Jóhannsson 2, Ólafur Geir Jónsson 0, Andri Daníelsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.

Mynd: Víkurfréttir / Grindvíkingar fagna sigri í Keflavík.