Glæsileg frammistaða í fyrsta leilk

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík vann glæsilegan sigur á Stjörnunni í fyrstu rimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn með 108 stigum gegn 84. Þrjá sigurleiki þarf til þess að tryggja sér titilinn. Grindavíkurliðið fór á kostum í síðasta leikfjórðungnum og var gaman að sjá leikmenn sem hafa verið lítt áberandi í vetur stíga upp þegar lykilmenn lentu í villuvandræðum.

Hart var barist í upphafi en Grindavík lék án Ryan Pettinella sem fór heim veikur. Sigurður Gunnar Þorsteinsson lenti í villuvandræðum og var hvíldur en þrátt fyrir það kom það ekki að sök. Hver þristurinn á fætur öðrum rataði ofan í í síðasta leikhlutanum og um tíma var liðið með fimm bakverði inn á vellinum, sem er með ólíkindum. En samt gekk allt upp. Grindavík vann síðasta leikhlutann 34-12!

Aaron Broussard var besti maður vallarins í kvöld. Bæði var hann stigahæstur með 39 stig auk þess að taka 12 fráköst. Jóhann Árni skoraði 26 stig og átti frábæran leik.

Grindavík-Stjarnan 108-84 (26-18, 20-30, 28-24, 34-12)
Grindavík: Aaron Broussard 39/12 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 26, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/7 fráköst/4 varin skot, Samuel Zeglinski 13/4 fráköst/7 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 11/6 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 3, Jens Valgeir Óskarsson 2.

Næsti leikur fer fram í Garðabæ föstudagskvöld.

Mynd (vf.is): Jóhann Árni átti frábæran leik.