Vefsíðan Fótbolti.net greindi frá þeim stórtíðindum í morgun að stjórn GG væri búið að ráða þjálfara fyrir sumarið. Þá hafa GG og knattspyrnudeild UMFG undirritað samstarfssamning. Þjálfarar liðsins verða tveir reynsluboltar úr grindvískri knattspyrnu, þeir Scott Ramsay og Ray Anthony Pepito Jónsson.
Frétt Fótbolta.net:
„Scott Ramsay og Ray Anthony Jónsson ætla í sameiningu að stýra GG í 4. deildinni í sumar.
GG, frá Grindavík, verður með lið í deildarkeppninni í fyrsta skipti í áraraðir í sumar. Liðið spilar sinn fyrsta leik í langan tíma á morgun þegar það mætir Þrótti Vogum í æfingaleik.
Scott og Ray spiluðu báðir með Grindavík um áraraðir og þeir munu nú spreyta sig í þjálfun.
Hinn fertugi Scott kom fyrst til Íslands árið 1997 en hann lék sína síðustu leiki með Grindavík síðastliðið sumar.
Ray er 36 ára og hefur leikið lengi með Grindavík en hann á að baki 31 landsleik með landsliði Filippseyja.
Auk þess að þjálfa liðið þá ætla Scott og Ray að spila með GG en félagið verður í samstarfi við lið Grindavíkur.“
Á myndinni eru þeir Ray og Scotty, ásamt Vilmundi Thor Jónassyni, varaformanni GG og Heimi Daða Hilmarssyni, formanni.