Grindvíkingar tóku á móti Gróttu nú á laugardaginn í 1. deild karla í knattspyrnu. Bæði lið höfðu byrjað mótið illa og voru stigalaus. Grindvíkingar höfðu aðeins skorað eitt mark og það úr víti en Gróttumenn áttu enn eftir að skora. Þetta var því fullkominn leikur fyrir Grindvíkinga að komast á blað og koma tímabilinu almennilega af stað.
Það er skemmst frá því að segja að þessi leikur fór einmitt þannig. Gróttumenn héldu uppteknum hætti og skoruðu ekkert og virkuðu þar fyrir utan mjög ólíklegir til að breyta því. Tomislav Misura, eða meistaradeildar Misura eins og gárungarnir kalla hann, setti bæði mörk Grindvíkinga og var hársbreidd frá því að setja þrennu undir lokin.
2-0 sigur staðreynd og Grindvíkingar vonandi komnir á beinu brautina í deildinni. Næsti leikur er svo útileikur gegn Selfyssingum á föstudaginn.
Fótbolti.net var að sjálfsögðu á staðnum. Skýrslu þeirra má lesa hér.