Fyrsta tapið kom í Þorlákshöfn

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Íslandsmeistarar Grindavíkur sóttu ekki gull í greipar Þórsara í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Þór lagði Grindavík að velli nokkuð örugglega með 9 stiga mun, 92 stigum gegn 83, þrátt fyrir stórleik Aaron Broussard hjá Grindavík sem skoraði 27 stig.

Þórsarar tóku strax frumkvæðið í leiknum og höfðu 8 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta og einnig í hálfleik. Eftir þriðja leikhluta var munurinn 9 stig. Grindavík náði að minnka muninn í sex stig en lengra komust okkar menn ekki sem réðu ekki við Robert Diggs undir körfunni en hann hirti 17 fráköst.

Jóhann Árni: Næstum því aðrar reglur í Þorlákshöfn en annars staðar
Jóhann Árni Ólafsson var einn besti leikmaðuir Grindavíkur í gærkvöld en 17 stigum hans voru ekki nóg til að landa sigri á erfiðum útivelli í Þorlákshöfn.

“Við misstum þá frá okkur í byrjun, náum þeim reyndar aftur fljótlega í öðrum leikhluta en misstum þá síðan aftur frá okkur og erum að elta þá allan tímann eftir það. Þeir voru alltaf þessum tíu stigum á undan okkur og við náðum aldrei að brúa það bil,” sagði Jóhann Árni eftir leik við Vísi.

Það var eins og Grindvíkingar lentu á vegg í seinni hálfleik þegar þeir voru búnir að jafna en nýttu ekki nokkur færi til þess að komast yfir.

“Við erum ekki mikið að pæla í því í leiknum því við erum bara reyna að skora í hverri sókn og stoppa í hverri vörn. Þetta hafðist ekki í dag,” sagði Jóhann.

“Þú þarft bara að eiga hörkuleik til þess að vinna nær öll lið í þessari deild og Þór er alvörulið. Ef þú spilar ekki þinn besta leik þá tapar þú bara í þessari deild. Við vorum ekki að spila okkar besta leik í kvöld þannig að þetta var bara verðskuldað tap,” sagði Jóhann.

“Þeir spila rosalega stíft hérna og næstum því aðrar reglur sem eru spilaðar hér heldur en annars staðar. Það er bara “playoffs”-bolti í hvert skipti sem maður kemur í Þorlákshöfn. Við vorum að láta þá ýta okkur út úr hlutunum til þess að byrja með sem við ætluðum alls ekki að gera. Við lentum í því og enduðum fyrir vikið alltaf á eftir í þessum leik,” sagði Jóhann.

Samuel Zeglinski fann sig ekki í kvöld og fyrirliðinn Þorleifur Ólafsson var ekki með liðinu í leiknum. Það hafði sín áhrif.

“Þór er þekkt fyrir vörnina sína og þeir voru að spila alvöru vörn á Samuel. Við vorum líka án Lalla (Þorleifur Ólafsson) í kvöld sem er einn af bestu leikmönnunum í þessari deild og það munaði heldur betur um hann. Við hinir þurfum þá bara að stíga fram en við gerðum það ekki nógu vel í dag,” sagði Jóhann Árni við Vísi.

Stigaskor Grindavíkur: Aaron Broussard 27, Jóhann Árni Ólafsson 17/8 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 13/8 fráköst, Samuel Zeglinski 9 /8 stoðs., Björn Steinar Brynjólfsson 7/6 fráköst, Davíð Ingi Bustion 6, Ómar Örn Sævarsson 4/9 fráköst, Jón Axel Guðmundsson.