Þetta lítur vel út. Grindavík sigraði Þór 93-89 í fyrstu rimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla eftir æsispennandi lokasprett. Grindvíkingar voru sterkari aðilinn allan tímann en Þórsarar eru ótrúlega seigir hefðu hæglega getað stolið sigrinum í lokin.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson gaf tóninn fyrir Grindavík og hóf leikinn með troðslu og Grindavík tók öll völd á vellinum. Mikið var skorað í fyrsta leikhluta, þristarnir lágu unnvörpum og staðan 29.-26 þegar flautan gall eftir 10 mínútur.
J’Nathan Bullock var að vanda sterkur hjá Grindavík og hann lét mikið að sér kveða í öðrum leikhluta auk þess sem Helgi Jónas Guðfinnsson keyrði á nánast öllum mannskapnum þannig að flestir lykilmenn fengu góða hvíld. Staðan í hálfleik var 56-44, Grindavík í vil.
Munurinn var 10 stig eftir þrjá leikhluta en á lokakaflanum hófst áhlaup Þórsara sem tókst að minnka muninn í 2 stig, 86-84, þegar fjórar mínútur voru eftir. En J’Nathan Bullock sýndi hvers megnugur hann er þegar hann kom heimamönnum 5 stigum yfir, 91-86, með þrist, spjaldið og ofan’í. Guðmundur Jónsson svaraði að bragði, með þriggja stiga körfu. Eftir leikhlé geigaði skot Páls Axels og héldu Þórsarar í sókn með rúmar 30 sek á klukkunni. Skot Guðmundar Jónssonar geigaði einnig og náði J’Nathan Bullock frákastinu og braut Darrin Govens strax á honum. Grindvíkingar fengu tvö vítaskot og gátu farið langt með að klára leikinn af vítalínunni. Jóhann Árni Ólafsson fór á vítalínuna en bæði skot hans geiguðu en Grindvíkingar náðu frákastinu og tryggðu sér tvö önnur vítaskot, nú þegar 7 sekúndur voru eftir af leiknum. J’Nathan Bullock skoraði úr báðum skotum sínum og tryggði Grindvíkingum sigurinn. Þórsarar fóru í sókn en þeir náðu ekki að athafna sig þar og þegar lokaflautið gall fór svo að Grindvíkingar stóðu uppi sem sigurvegarar, 93-89.
Stig Grindavíkur: J’Nathan Bullock 29/9 fráköst, Giordan Watson 16/4 fráköst/13 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 14, Þorleifur Ólafsson 12, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10/6 fráköst, Ryan Pettinella 8/6 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 4/4 fráköst.
Grindavík leiðir 1-0 í einvíginu og fer svo Suðurstrandarveginn á fimmtudaginn og mætir Þórsurum á erfiðum útivelli.
Mynd: Þorsteinn Gunnar Kristjánsson.