Grindvíkingum tókst ekki að fylgja eftir tveimur frábærum sigrum á Haukum í Hafnarfirði í gær og einvígið stendur því áfram, staða 2-1 fyrir Grindavík. Haukar mættu dýrvitlausir til leiks í gær og Grindvíkingar sáu aldrei til sólar í leiknum, lokatölur 72-45 eftir afar erfiðar leik sóknarlega hjá Grindavík. Það verður því leikur í Mustad-höllinni á föstudaginn þar sem Grindavík fær annan séns til að loka einvíginu.
Síðuhaldari lét sig að sjálfsögðu ekki vanta í stúkuna og skrifaði umfjöllun um leikinn sem birtist á karfan.is í gærkvöldi:
Haukar lifa annan dag eftir stórsigur á Grindavík
Stuðningsmenn Grindavíkur fjölmenntu í Schenken-höllina í kvöld, enda ekki á hverjum degi sem liðið í 4. sæti á möguleika á að sópa deildarmeisturunum útúr úrslitakeppninni. En sóparnir fóru ekki á loft í Hafnarfirði í kvöld. Eftir tvo frábæra sigra í röð hjá Grindavík var leikur liðsins í kvöld nær óþekkjanlegur. Varnarleikurinn var svo sem ágætur í byrjun en sóknarleikurinn einfaldlega afleitur og vart til staðar á löngum köflum.
Leikurinn fór rólega af stað og gestirnir gátu varla kvartað í stöðunni 14-10 eftir 10 mínútur. En í 2. leikhluta kom hrunið. Það tók Grindavík 4 mínútur að skora körfu í leikhlutanum og stigin urðu aðeins 8 í honum í heildina. Á meðan létu Haukar körfunum rigna í öllum regnbogans litum, en þó helst Helena sem var með 23 stig af 35 stigum liðsins. Staðan í hálfleik 35-18 og ljóst að Grindavík ætti erfitt verkefni fyrir höndum í seinni hálfleik.
En Haukar slökuðu ekkert á klónni í seinni hálfleik og héldu uppteknum hætti frá fyrstu mínútu. Sóknarleikur Grindavíkur sem í síðasta leik flæddi líkt og úr spenum Auðhumlu var í kvöld álíka stíflaður og trúverðugleiki Framsóknarflokksins. Ég hef ekki tölu á því hversu margar sóknir runnu út í sandinn með þvinguðum og erfiðum sendingum en Grindavík tapaði 18 boltum í kvöld, en Haukar aðeins 9. Þar fyrir utan fengu Grindavíkurkonur varla nema 1-2 opin skot í öllum leiknum.
Munurinn á liðunum í kvöld lá ekki síst í leikgleði og baráttu Haukakvenna. Það var einfaldlega eins og allt annað lið mætti til leiks í kvöld en í síðasta leik. Þær hrifsuðu til sín fráköst (56 vs. 44) og alla lausa bolta eins og enginn væri morgundagurinn. Helena var líkt og svo oft áður lang stigahæst Hauka með 30 stig (11 fráköst og 7 stoðsendingar) en ólíkt síðasta leik þá fengu Haukar stig frá fullt af leikmönnum í kvöld. Skotin voru líka að detta og eftir því sem leið á leikinn fengu þær oft galopin færi, bæði undir körfunni og opin skot.
Lokatölur leiksins urðu 72-45 en þjálfarar beggja liða tæmdu bekkinn síðustu tvær mínúturnar. Sú áhugaverða staða kom upp í tvígang undir lokin að miðherjinn Helga Einarsdóttir bar upp boltann og komst ágætlega frá því. Hver veit nema að Daníel þjálfari Grindavíkur sé að reyna að móta kvenkyns Giannis Antetokounmpo?
Haukar sluppu því við snemmbært sumarfrí að þessu sinni, en það verður eflaust barist til síðasta blóðdropa í Grindavík á föstudaginn.
Umfjöllun – Siggeir F. Ævarsson
Viðtal við Íris eftir leik
Viðtal við Helgu eftir leik