Fullt hús í Lengjubikarnum, sigur á Snæfelli í miklum spennuleik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík tók á móti Snæfelli í Lengjubikar kvenna í gærkvöldi í leik sem varð æsispennandi en okkar konur höfðu sigur að lokum, 66-65. Grindavíkurliðið er nokkuð þunnskipað í upphafi móts þar sem fjórir sterkir leikmenn eru úr leik í bili. Whitney Frazier hefur verið afar öflug í fyrstu leikjum haustsins og hélt sínu striki í gær, en hún hefur skorað 23 stig að meðaltali í leik og tekið 12 fráköst, gefið 5 stoðsendingar og stolið 5 boltum. 

Fréttaritari síðunnar var á leiknum og skrifaði umfjöllun sem birtist einnig á karfan.is:

Með fullri virðingu fyrir liðum Þórs og Breiðabliks þá er óhætt að fullyrða að leikur Grindavíkur og Snæfells í kvöld hafi verið fyrsti leikur vetrarins þar sem bæði lið þurftu að hafa fyrir hlutunum.

Grindavík stillti upp ansi sterku byrjunarliði en bekkurinn í kvöld var eingöngu skipaður grunnskólanemendum. Þær Ingibjörg Jakobsdóttir og Ingunn Embla Kristínardóttir voru báðar í borgarlegum klæðum á bekknum í kvöld og þá voru þær Lilja Ósk Sigmarsdóttir og María Ben Erlingsdóttir báðar fjarri góðu gamni og verða væntanlega eitthvað áfram. Þetta Grindavíkurlið á því töluvert inni.

Íslandsmeistarar Snæfells urðu einnig fyrir blóðtöku fyrir þetta tímabil en Hildur Sigurðardóttir, sem hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar um árabil, lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil.

Leikurinn fór nokkuð brösulega af stað en gestirnir voru þó skrefi á undan allan fyrri hálfleikinn og leiddu í hálfleik, 25-32. Þjálfari Grindavíkur, Daníel Guðni Guðmundsson, var alltaf annað en ánægður með leik sinni stúlkna og þá sérstaklega í vörninni þar sem gestirnir fengu trekk í trekk að skora alltof auðveldar körfur inni í teig. Hann lét vel í sér heyra í leikhléi rétt fyrir hálfleik og eflaust inni í klefa líka því Grindavíkurstúlkur mættu tvíefldar til leiks eftir hlé og unnu fjórðunginn 25-15. Liðin skipust síðan á að taka forystuna síðustu mínúturnar og úr varð hörkuleikur þar sem úrslitin réðust á vítalínunum. Í stöðunni 66-62 fékk Palmer hjá Snæfelli 3 vítaskot og aðeins 2,3 sekúndur til leiksloka. Klaufalegt brot en á línuna fór hún og setti öll skotin. Grindvíkingar tóku leikhlé og fóru síðan á vítalínuna, Jeanna setti seinna skotið ofan í og aðeins 1,3 sekúndur eftir sem dugðu Snæfelli ekki til að skjóta og Grindavíkursigur staðreynd í þessum æsispennandi leik.

Hjá báðum liðum voru tveir leikmenn áberandi atkvæðamestir og drógu vagninn sóknarlega. Hjá Grindavík var Whitney Frazier með 26 stig og 15 fráköst en hún var komin með 4 villur í öðrum leikhluta og gat lítið sem ekkert beitt sér varnarlega eftir það. Það hefði sennilega ekki þurft að spyrja að leikslokum ef hún hefði fengið 5. villuna. Næst kom Petrúnella Skúladóttir með 21 stig og 2 varin skot, þar af eitt risa blokk rétt undir lokin.

Hjá Snæfelli var Berglind Gunnarsdóttir stigahæst með 25 stig og 7 fráköst, en Haiden Palmer var einnig drjúg með 24 stig og 11 fráköst. Grindvíkingar náðu að mestu að loka á hana í 3. leikhluta sem var sennilega lykilatriði í sigri þeirra en hún skoraði grimmt og nánast að vild á lokasprettinum í áhlaupi Snæfells.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Facebook)