Frazier með 40 stig í opnunarleik tímabilsins

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Formleg vígsluathöfn hins nýja íþróttmannvirkis okkar Grindvíkinga fór fram í dag og var dagskráin glæsileg. Einn af hápunktum dagsins var fyrsti leikur Grindavíkur í vetur í Dominos deild kvenna en þær tóku á móti Valskonum í dag. Í hálfleik var skrifað undir fjöldan allan af samningum við íþróttafélög í bænum en einnig við nýjan styrktaraðila hjá körfunni, Mustad. Það er skemmst frá því að segja að Grindavík vann leikinn í dag, 89-68.

Fréttaritari síðunnar var á staðnum og skrifaði eftirfarandi umfjöllun um leikinn sem einnig birtist á karfan.is:

Grindvíkingar léku sinn fyrsta leik í Mustad höllinni í dag en Röstin í Grindavík hefur fengið nýtt nafn og heitir nú Mustad höllin, en skrifað var undir styrktarsamning körfuknattleiksdeildar og norska fyrirtækisins Mustad í hálfleik.

Leikurinn fór ekki vel af stað fyrir heimastúlkur og sennilega var farið að votta fyrir ákveðinni örvæntingu hjá grindvískum áhorfendum sem fjölmenntu í stúkuna í dag, þegar staðan var 2-11. En í stað þess að brotna við fyrsta mótlæti tók Daníel Guðni leikhlé og lagði sínum leikmönnum línurnar uppá nýtt. Staðan varð reyndar 2-14 eftir leikhléið en svo náðu Grindvíkingar áttum. Með mikilli vinnusemi, þá sérstaklega varnarmegin, söxuðu Grindvíkingar hægt og rólega á forskot Valskvenna og voru komnar yfir, 21-18, þegar leikhlutinn var á enda.

Heimastúlkur litu ekki til baka eftir fyrsta fjórðung og létu forystuna aldrei af hendi. Þær bættu frekar í heldur en hitt og unnu að lokum góðan 21 stiga sigur, 89-68. Whitney Frazier dró vagninn sóknarlega og skoraði 40 stig, 5 stigum minna en allt liðið í síðasta leik. Hún sýndi í þessum leik að hún er illviðráðanleg nálægt körfunni þar sem hún klárar flest sín færi en þar fyrir utan stal hún 9 boltum í leiknum og tók 13 fráköst, og var því glettilega nálægt þrefaldri tvennu af dýrari gerðinni. Þar fyrir utan var hún með 55 framlagsstig!

En þrátt fyrir að Frazier hafi leitt liðið sóknarmegin má sannarlega skrifa þennan sigur á liðsheildina. Hver einasta leikmaður lagði sig 100% fram á báðum endum vallarsins. Björg Einarsdóttir var mjög þétt fyrir í vörninni og gerði bakvörðum Valskvenna lífið leitt og þá átti Lilja Ósk Sigmarsdóttir mjög góða innkomu af bekknum, reif í sig 15 fráköst og skoraði 10 stig og baráttan og ósérhlífnin smitaði frá sér til annarra leikmanna.

Hjá Valskonum var Hallveig Jónsdóttir stigahæst með 18 stig, þar af 4 þrista, sem reyndar komu í 12 tilraunum. Karisma Chapman var næst stigahæst með 17 stig og 11 fráköst en hún lék leik með 5 villur skömmu fyrir leikslok. Hún átti nokkuð erfitt uppdráttar gegn sterkri vörn Grindavíkur og gekk illa að klára sín færi.

Tölfræði leiksins

Myndasafn á Facebook Grindavíkurbæjar