Forréttindi að taka þátt í svona leik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

„Það er virkilega ljúft að vera kominn í úrslit og bara ljúft að spila svona leik. Þetta var flottur körfubolti í alla staði fyrir framan fullt af áhorfendum. Það voru forréttindi að taka þátt í þessu,” sagði Jóhann Árni Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, við Vísi eftir leikinn.

Hann átti virkilega flottan leik og steig ósjaldan upp þegar Grindavík þurfti á honum að halda.

„KR var að berjast fyrir lífi sínu í kvöld og eðlilegt að þeir hafi átt sín áhlaup og lagt allt í sölurnar. Við náðum að stoppa þá og halda þeim frá okkur.”

Grindavík vinnur rimmuna 3-1. Voru KR-ingarnar erfiðari eða auðveldari en Jóhann Árni átti von á.

„Á pari fannst mér. Þetta er lið sem var spáð titli. Þeir eru með hörkumannskap en lentu í vandræðum í vetur og ætluðu svo að bjarga tímabilinu í úrslitakeppninni. Það er erfitt að gera það. Þeir verða enn sterkari á næsta ári með einn Kana í sínu liði.”

Það er ljóst að Grindavík mætir annað hvort Stjörnunni eða Snæfelli í úrslitum en þau mætast á morgun og þá getur Stjarnan tryggt sig inn í úrslitin.

„Stjarnan á eftir að rúlla yfir Snæfell að mínu mati. Við ætlum aðeins að njóta sigursins og svo förum við að skoða Stjörnuna ef við fáum þá eins og ég býst við.”