Fjölnisstúlkur fóru með öll stigin úr Mustad-höllinni

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík tók á móti Fjölni í 1. deild kvenna í gærkvöldi. Fjölnisstúlkur tók forystu strax í upphafi leiks og létu hana aldrei af hendi, þrátt fyrir öflugar atlögur Grindavíkur. Lokatölur 62-74.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Grindavík tók á móti Fjölni í þriðju viðureign liðanna í 1. deild kvenna í vetur en liðin höfði skipt með sér sigrunum í fyrri viðureignum. Grindavík sigraði í hörkuleik sem fram fór í Mustad höllinni, 68-63, en Fjölnir tryggði sér tvö stig í miklum stigaleik sem fram fór í Dalhúsum, 101-85. Eftir nokkuð jafnan leik framan af þá var það Fjölnir sem fór með sigur af hólmi í kvöld, 62-74.

Viðsnúningurinn
Fjölnir náði yfirhöndinni strax í upphafi leiks og leiddi með 14 stigum um miðjan þriðja leikhluta. Þá kom góður kafli hjá Grindvíkingum þar sem þær sóttu grimmt að körfunni og uppskáru eftir því. Á meðan gekk erfiðlega hjá Fjölni að koma boltanum í körfuna þrátt fyrir að þær sköpuðu sér ágætis færi. Grindvíkingar minnkuðu muninn niður í 5 stig þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta en sendu Fanndísi Maríu Sverrisdóttur á vítalínuna í tvígang undir lok fjórðungsins og jók hún forystu Fjölnis í 8 stig áður en leikhlutinn rann sitt skeið.

Í upphafi lokafjórðungsins virtust heimakonur ætla að halda áfram að saxa á forskot Fjölnis og minnkuðu þær muninn aftur niður í 5 stig. Þá tóku Fjölniskonur til sinna mála og skoruðu 10 stig í röð. Eftir það virtist sigurinn aldrei í hættu og gestirnir héldu heim í Grafarvog með 2 stig í fararteskinu.

Tölfræðin lýgur ekki
Fjölnir var með yfirburði þegar kom að frákastabaráttunni en þær tóku 59 fráköst á móti 39 fráköstum Grindavíkur. Þar af tók Fjölnir 25 sóknarfráköst sem hafði mikið að segja í kvöld.

Framlagshæstu leikmenn
McCalle Feller var stigahæst í liði Fjölnis með 24 stig auk þess að taka 11 fráköst og gefa 4 stoðsendingar. Þá skoraði Berglind Karen Ingvarsdóttir 20 stig og tók 11 fráköst og Erla Sif Kristinsdóttir skoraði 16 stig og tók 7 fráköst.

Hjá Grindavík voru Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir, Jenný Geirdal Kjartansdóttir og Angela Rodriguez stigahæstar með 11 stig hver og Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir bætti við 10 stigum. Þá var Angela Rodriguez frákasta- og stoðsendingahæst með 7 fráköst og 5 stoðsendingar.

Kjarninn
Með sigrinum í kvöld styrkti Fjölnir stöðu sína í 2. sæti 1. deildar kvenna og setti 4 stig á milli sín og Grindavíkur sem situr í 3. sæti.

Grindavík heldur í Hertz hellinn á laugardaginn þar sem þær munu mæta ÍR og á sunnudaginn tekur Fjölnir á móti Þór Akureyri í Dalhúsum.

Tölfræði leiksins