Fiskur í öll mál

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Juraj Grizelj, leikmaður Grindavíkur í 1. deild karla í knattspyrnu, hefur svo sannarlega reynst happafengur fyrir þá gulklæddu í sumar. Hann hefur leikið frábærlega með liðinu í sumar og var í dag valinn í lið 7. umferðar 1. deildar karla af Fótbolta.net. Það er fjórða umferðin í röð sem Grizelj er í úrvalsliði umferðarinnar.

„Ég er ánægður með þetta en þetta eru fyrst og fremst verðlaun fyrir liðið,” sagði Juraj Grizelj leikmaður 7. umferðar í 1. deild karla á Fótbolta.net. Juraj skoraði eitt mark og var mjög öflugur í 3-2 sigri Grindvíkinga á Leikni á laugardag.

„Við vorum 3-0 yfir og vorum að stjórna leiknum en síðan fengum við á okkur mark sem kom þeim aftur inn í leikinn. Það var samt enginn hræddur um að við myndum ekki vinna þennan leik. Við erum fullir sjálfstraust og óhræddir.”

Grindvíkingar hafa unnið sex af sjö leikjum sínum í sumar og eru á toppnum í fyrstu deildinni. „Við reynum að vinna í hverri viku og þetta er í rétta átt hjá okkur. Það er samt mikið eftir. Það eru sjö umferðir búnar og fimmtán eftir og við verðum að taka þetta skref fyrir skref,” sagði Juraj aðspurður út í möguleika liðsins á að endurheimta sæti í Pepsi-deildinni.  

Lesa má viðtalið við Grizelj í heild sinni á Fótbolti.net.