Fimm dagar – Grindvíkingar þekkja bikarstemmninguna

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

„Þetta eru tvö góð lið á góðum stað. Stjarnan er með nýjan útlending og spurning hvaða áhrif það hefur. Við erum virkilega vel stemmdir og ætlum okkur ekkert annað en sigur. Mín reynsla er sú að mestu máli skipti í tengslum við þennan stórleik er að nálgast hann á þann hátt að halda sömu rútínu og fyrir alla aðra leiki. Þetta er eins og hver annar leikur þótt athygli sé mikil og bikar í boði. Spennustigið má ekki vera of hátt og við megum ekki fara fram úr sjálfum okkur. Leikir liðanna í vetur hafa verið skemmtilegir,” segir Þorleifur Ólafsson fyrirliði Grindavíkur um bikarúrslitaleik Grindavíkur og Stjörnunnar á laugardaginn.

Hann segir að veturinn hjá Grindavíkurliðinu hafi verið góður. Að sjálfsögðu hafi frammistaðan verið misjöfn en góður stígandi hafi verið í leik liðsins á undanförnum vikum. Grindavík hafi unnið jafna og spennandi leiki á lokasprettinum sem sé styrkleiki góðra liða.

„Ég hvet alla Grindavíkinga til þess að fjölmenna í Laugardalshöllina. Grindvíkingar þekkja þessa bikarstemmningu og svo er auðvitað draumurinn minn sem fyrirliði að lyfta bikarnum á loft í leikslok undir dynjandi fagnaðarlátum allra Grindvíkinga,” sagði Þorleifur að endingu.