Enn bætist í hópinn hjá Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindvíkingar eru að ganga frá samningum við varnarmanninn Steven Old frá Nýja-Sjálandi. Steven kom til Íslands í fyrradag og hann spilaði með Grindvíkingum í 1-0 sigri á Víkingi R. í æfingaleik í gær þar sem Loic Ondo skoraði sigurmarkið. Steven Old er þriðji útlendi leikmaðurinn sem semur við liðið á rúmri viku.

Í síðustu viku kræktu Grindvíkingar í Gavin Morrison og Jordan Edridge.

,,Ég hugsa það að þetta verði síðasta púslið nema það komi eitthvað óvænt upp,” sagði Guðjón Þórðarson þjálfari liðsins við fotbolta.net.

Steven er 26 ára gamall en hann lék með Kilmarnock í skosku úrvalsdeildinni frá 2009-2011 eftir að hafa áður spilað í Ástralíu. Í vetur var hann á mála hjá Basingstoke Town í ensku utandeildinni.

Steven hefur leikið 17 landsleiki með Ný-Sjálendingum en hann var síðast í hópnum gegn Mexíkó í mars árið 2010 þegar hann kom inn fyrir Ryan Nelsen varnarmann Tottenham sem var meiddur.