Ekki nóg bensín á tanknum til að klára Njarðvíkinga

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Lemstraðir Grindvíkingar tóku á móti Njarðvíkingum í gær. Lalli og Jóhann sem fyrr meiddir, og Maggi og Ómar báðir fjarri góðu gamni. Þá var hinn nýji Bandaríkjamaður, Rodney Alexander, nýkominn til landsins og aðeins búinn að taka eina æfingu með liðinu. Það var því ljóst frá upphafi að það yrði á brattann að sækja fyrir okkar menn.

Heimamenn fóru ágætlega af stað en í hálfleik var staðan 32-46. Okkar menn gerðu sitt besta í þriðja leikhluta en kláruðu af tanknum og Njarðvíkingar sigldu að lokum nokkuð þægilegum sigri í höfn.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Njarðvíkingar unnu í kvöld sinn fyrsta deildarleik í Röstinni síðan 2009! Lokatölur 74-85. Vængbrotið lið Grindavíkur er sem fyrr án Jóhanns Árna og Þorleifs, Magnús Þór tók út leikbann og Ómar Örn lá veikur heima. Bakvörðurinn Daníel Guðni er mættur aftur í slaginn eftir meiðsli en það voru engu að síður Njarðvíkingar sem fóru með stigin úr Grindavík. Gulir áttu flottan kafla í þriðja leikhluta en við þá rispu tæmdist tankurinn og Njarðvíkingar kláruðu verkefnið í fjórða hluta.

Heimamenn í Grindavík fóru betur af stað, þristar frá Þorsteini Finnbogasyni og Ólafi Ólafssyni komu gulum í 8-2 en Njarðvíkingar tóku fljótt við sér og jöfnuðu metin. Dustin Salisbery var nokkuð líflegri heldur en í Keflavíkurleiknum og gerði 8 af fyrstu 10 stigum Njarðvíkinga. Ragnar Helgi Friðriksson byrjaði hjá grænum í leikstjórnendastöðunni og vann á með hverri mínútunni. Helsta innspýtingin í fyrsta leikhluta var Snorri Hrafnkelsson og hann var búinn að átta sig á götunum í Grindavíkurvörninni, hljóp völlinn vel og bjó sér til svæði og liðsfélagar hans mötuðu hann með fínum sendingum sem gaf Snorra og grænum átta stig í röð. Að sama skapi var nýjasti Grindvíkingurinn, Rodney Alexander, Njarðvíkingum erfiður en kauði er stór og sterkur en blés nokkuð því formið var ekki sem best. Leiddir af Snorra þeim skynsama voru Njarðvíkingar yfir, 18-24 eftir fyrsta hluta.

Njarðvíkingar hertu enn róðurinn í vörninni í öðrum leikhluta, héldu Grindvíkingum í aðeins tveimur stigum fyrstu sex mínútur leikhlutans og slitu sig frá í 20-36 eftir þriggja stiga körfu frá Loga Gunnarssyni. Almennt andleysi í herbúðum Grindavíkur setti þá svo 14 stigum undir í hálfleik, 32-46.

Rodney Alexander var með 17 stig og 8 fráköst hjá Grindavík í hálfleik og Ólafur Ólafsson var með 8 stig og 6 fráköst. Hjá Njarðvík var Dustin Salisbery með 14 stig og 9 fráköst og Snorri Hrafnkelsson var með 10.

Varnarleikur heimamanna í Grindavík var allur annar og betri strax í upphafi þriðja leikhluta og hófu þeir fyrir vikið hægt og bítandi að saxa á forystu gestanna. Ólafur og Þorsteinn komu með aðra þristafléttu. Munurinn fór niður í 53-55 en þá setti Ragnar Helgi langþráðan þrist fyrir Njarðvíkinga 53-58. Grindvíkingar kláruðu með 6-0 spretti og komust yfir og leiddu 59-58 en lokakörfu leikhlutans gerði Oddur Rúnar Kristjánsson eftir stolinn bolta og auðvelda körfu í hraðaupphlaupi.

Ólafur Ólafsson hélt áfram að setja þá niður í þriðja og minnkaði muninn í 66-68 og var þá 5/7 í þristum. Rodney Alexander á nokkuð eftir í sitt besta form en hann var aðeins með eitt stig í síðari hálfleik. Hann verður vísast erfiðari með hverjum leiknum. Of mikið lá hjá Oddi Rúnari og Ólafi í Grindavíkurliðinu á lokasprettinum en Njarðvíkingar náðu að dreifa álaginu betur. Dustin var beittur og lokaði leiknum endanlega með þrist og kom Njarðvík í 71-82 og lokatölur 74-85 eins og áður segir.

Njarðvíkingar stukku upp í 7. sæti deildarinnar með 6 stig en Grindvíkingar eru í 8. sæti með 4 stig. Næsti leikur grænna í deildinni er gegn Snæfell í Ljónagryfjunni en Grindvíkingar heimsækja ÍR í Hertz Hellinn.