Grindvíkingar heimsóttu Seljaskóla í gær, en bæði lið voru Kanalaus í leiknum. Eric Wise, leikmaður Grindavíkur, hefur ekki enn fengið leikheimild og Jonathan Mitchell leikmaður ÍR er meiddur. Okkar menn virðast þó vera orðnir vanir Kanaleysinu og létu það lítið á sig fá í gær og hreinlega völtuðu yfir heimamenn. ÍR-ingar réðu hreinlega ekkert við skyttur Grindvíkinga sem voru gjörsamlega á eldi í upphafi leiks og enduðu á að setja 17 þrista í 34 tilraunum. Þar af voru Jón Axel og Páll Axel með 9 stykki í aðeins 11 tilraunum. Lokatölur 79-94.
Karfan.is fjallaði um leikinn en einnig er vert að senda “shout-out” á NBA Ísland sem var með sinn fulltrúa á staðnum og fjallaði um leikinn á sinn einstaka hátt, en myndin sem fylgir fréttinni er frá þeim.
NBA Ísland – Blóðbað í Breiðholti
ÍR-ingar vissu að erfiður leikur væri í vændum í kvöld, hafandi misst Jonathan Mitchell í meiðsl næstu daga og takandi á móti sjóðheitum Grindvíkingum. Það er engu logið til um það að þeir mættu sjóðheitir í Hellinn.
Gestirnir biðu ekki eftir leyfi heldur hófu að negla boltanum ofan í körfuna án þess að blikna. 10 þriggja stiga skot rötuðu rétta leið hjá þeim í 15 tilraunum í fyrri hálfleik. Andleysi ÍR-inga var hins vegar algert en þeir tóku svívirðingum gestanna sitjandi og án nokkurra viðbragða. Breiðhyltingum til varnar, er afar erfitt að bregðast við því þegar Axel – hvort sem hann ber fornafnið Jón eða Páll – raðar niður þristum standandi meter fyrir utan línuna. PAxel og JAxel voru samtals 9/9 í þristum þegar um 25 mínútur voru liðnar af leiknum. Eðlilegt?
Hálfleikstölur voru 31-57 og ljóst að eitthvað þurfti að gerast strax í seinni hálfleik svo heimamenn gætu gengið heim með höfuð hátt.
ÍR-ingar spiluðu mun betur í seinni hálfleik en Grindavík hélt sínu striki og viðhélt yfir 20 stiga mun allt til loka þriðja fjórðungs. Varamenn beggja liða léku svo til leiksloka og náðu þá heimamenn að minnka muninn örlítið.
Grindvíkingar hittu úr nánast öllu sem þeir settu upp. Þeir voru með betri nýtingu utan þriggja stiga línunnar en innan hennar í næstum jafnmörgum skotum. Jóhann Árni Ólafsson var 2 stoðsendingum frá þrennunni með 20 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar. Jóni Axel tókst ekki að náð þrennu þriðja leikinn í röð en átti engu að síður mjög góðan leik með 19 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. ÍR-ingum tókst ekki að koma Ómar Sævarssyni úr jafnvægi – þrátt fyrir mjög góða tilraun – en hann skoraði 12 stig og tók 12 fráköst.
Hjá ÍR var það Oddur Kristjánsson sem mætti einn í vinnuna í kvöld. Hann skoraði 24 stig, skaut 4/9 í þristum, tók 4 fráköst og stal 2 boltum.