Einstefna í Mustad höllinni í gær – Grindavík komið í bikarúrslitin

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík og Stjarnan mættust í 4-liða úrslitum Powerade bikars kvenna í Mustad höllinni í gær, í leik sem var einstefna nánast frá upphafi og Grindavíkursigurinn aldrei í hættu. Stelpurnar hafa því tryggt sér sæti í úrslitaleiknum í Höllinni og geta varið titilinn síðan í fyrra en þær mæta Snæfelli í úrslitaleiknum. Strákarnir eiga svo heljarstórt verkefni fyrir höndum en þeir mæta Íslandsmeisturum KR í kvöld. 

Fréttaritari síðunnar fjallaði um leikinn en fréttin birtist áður á karfan.is í gærkvöldi:

„Grindavíkurkonur sýndu allar sínar bestu hliðar í kvöld og undirstrikuðu að þarna eru á ferðinni ríkjandi bikarmeistarar og engin tilviljun að topplið Hauka lá gegn þeim í síðustu umferð. Leikurinn í kvöld var aldrei spennandi nema rétt í byrjun. Grindvík lokaði 1. leikhluta með góðu áhlaupi og leiddu með 8 stigum. Á þessum 10 mínútum tókst þeim að stela boltanum 6 sinnum af gestunum sem virtust ekki alveg tilbúnar í ákafann sem Grindvík hóf leikinn af.

Í 2. leikhluta gerðu heimastúlkur svo einfaldlega útum leikinn. Þær skiptu í svæðisvörn og skelltu í lás varnarmegin og á sama tíma gekk allt upp sóknarmegin. Stjörnustúlkur skoruðu aðeins 9 stig í þessum leikhluta gegn 26 stigum Grindvíkinga og staðan því 49-25 í hálfleik. Hrund og Ingunn áttu báðar mjög góða innkomu af bekknum og Grindavík að rúlla á mörgum leikmönnum sem allir skiluðu góðu framlagi. Grindavík var með 60% nýtingu fyrir utan þriggja í fyrri hálfleik meðan ekkert gekk upp í sóknarleiknum hjá Stjörnunni.

Á þeim tímapunkti má segja að leikurinn hafi hreinlega verið búinn. Stjörnustúlkur mættu ögn ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og náðu að skerpa á vörinni en sóknin var áfram frekar stirð. Raunar fór seinni hálfleikur svo hægt af stað að boltinn fór ekki í gegnum netið fyrr en rúmar 2 mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Stjarnan vann leikhlutann 18-12 en voru samt ennþá 19 stigum undir og aðeins 10 mínútur eftir af leiknum.

Heimastúlkur mættu öllu hressari til leiks í loka fjórðunginn, þær hafa sennilega áttað sig á því að leikurinn var ekki alveg búinn. Um leið og Grindavík sýndi smá lit sást að þær voru einfaldlega í allt öðrum klassa en Stjarnan í kvöld. Lykilmenn hjá Stjörnunni gátu ekki keypt körfu, Margrét Kara var t.a.m. með 4/21 í skotum og Hanna Hreinsdóttir setti tvo þrista í níu tilraunum. Þá var það ekki að hjálpa þeim að Kaninn, Adrienne Godbold, er rétt nýkomin til landins og í ofanálag með einhverja pest og spilaði aðeins 23 mínútur tæpar í leiknum. Ragna Margrét Brynjarsdóttir var stigahæst Stjörnukvenna í kvöld með 18 stig, en þurfti að hafa mikið fyrir öllum körfum gegn stífri vörn Grindavíkur.

Grindavík vann sannkallaðan liðssigur í kvöld. Skotnýtingin var afar góð, ekki síst fyrir utan þriggja, 10/21 sem gerir 47,6% nýtingu. Þó voru þrír leikmenn sem sköruðu fram úr sóknarmegin. Whitney Frazier setti 25 stig og tók 8 fráköst, Hrund Skúladóttir skoraði 15 stig, ekki amalegt að fá slíkt framlag frá leikmanni sem er í 10. bekk, og þá átti Ingunn Embla Kristínardóttir mjög góðan leik, skoraði 14 sig og setti þrjá þrista í þremur tilraunum. En eins og sagði hér að ofan þá áttu allir leikmenn Grindavíkur flottan dag og allir sem komu inná lögðu sig 100% fram á báðum endum vallarins. (Intensity: Give 100%. 110% is impossible. Only idiots recommend that. – Ron Swanson)

Grindavík er því komið í Höllina annað árið í röð og mæta þar liði Snæfells sem kláraði Keflavík í kvöld. Lokatölur í Grindavík í kvöld: 77-57.“

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Facebook)

Viðtal við Daníel Guðna í leikslok: