Einstefna í 4. leikhluta og öruggur heimasigur staðreynd gegn Skallagrími

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Skallagrímsmenn heimsóttu okkur Grindvíkinga í Röstina í gærkvöldi. Fyrirfram hefðu flestir búist við að heimamenn gætu tekið þennan leik með vinstri en Borgnesingar sýndu það að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin en eftir því sem leið á leikinn dró í sundur með liðunum og Grindvíkingar lönduðu öruggum 31 stigs sigri, 106-75.

Við endurbirtum hér pistil sem fréttaritari grindavik.is skrifaði í gærkvöldi fyrir karfan.is:

,,Í Grindavík í kvöld mættust tvö lið sem komu með töp á bakinu útúr fyrstu umferðinni. Fyrirfram reiknuðu menn þó ekki með stórum afrekum frá Skallagrímsmönnum, sem spáð var neðsta sætinu nokkuð afgerandi. Grindvíkingum var aftur á móti spáð öðru sæti í deildinni en eftir að spáin var gerð misstu þeir ansi öflugan leikmann á báðum endum vallarins, þegar Sigurður Þorsteinsson hélt í atvinnumennsku til Svíþjóðar.

Grindvíkingar voru að spila sinn fyrsta leik og einnig að frumsýna þrjá leikmenn í hinum gulu búningum. Keflvíkingar Magnús Gunnarsson, KR-Blikann Odd Rúnar Kristjánsson og hinn nýja erlenda leikmann, Joel Haywood. Þá voru mættir í heimsókn tveir gamlir Grindvíkingar, bræðurnir Páll Axel og Ármann Örn, Vilbergssynir. Páll Axel hefur í gegnum tíðina sett ófáa þrista í Grindavík og átti eftir að setja nokkra í þessum leik líka.

Mikill hraði einkenndi fyrsta leikhlutann. Joel fór mikinn í leikhlutanum, skoraði 8 stig í 4 skotum og sýndi að hann býr yfir ógurlegum sprengikrafti og það eru sennilega fáir leikmenn í deildinni sem ná að halda honum fyrir framan sig í vörninni. Bæði lið virtust vera að reyna að finna taktinn framan af, og voru kannski að spila hraðar en þau réðu við. Sumir myndu kannski segja að það hafi verið svolítill haustbragur á leiknum til að byrja með.

Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu tvo leikhlutana. Grindvíkingarnir voru oftast skrefi á undan en náðu ekki að hrista Skallana af sér. Páll Axel setti tvo þrista með stuttu millibili um miðjan 2. leikhluta og kom þeim í 36-39. Þá tók Sverrir leikhlé og kallaði þrjá menn inn af bekknum. Hann var óhræddur við að rótera leikmönnum í leiknum og voru margir leikmenn að skila drjúgum mínútum.

Grindvíkingar voru kannski ögn kærulausir á þessum tímapunkti í leiknum, Maggi Gunn og Óli Óla reyndu t.d. við alley oop sirkuskörfu sem mistókst og var Sverrir gjörsamlega brjálaður á bekknum. Þeir náðu þó að bæta upp fyrir það seinna í leiknum og tróð þá Óli boltanum með stæl eftir langa sendingu frá Magga sem virðist hafa nokkuð næmt auga fyrir svona sendingum.

Í seinni hálfleik tóku Grindvíkingar hægt og bítandi öll völd á vellinum. Þeir róuðu niður sóknarleikinn, létu boltann ganga og fengu góð skot en keyrðu á sama tíma upp ákafann í vörinni, yfirdekkuðu grimmt og hjálpuðust vel að undir teignum þar sem Tracey Smith var þeim erfiður. Hann bakkaði Ómar fast niður og heimamenn heimtuðu bæði skref og sóknarvillur en dómararnir voru lítið að flauta. Ómar lenti þó í villuvandræðum en Þorsteinn Finnbogason átti góða innkomu af bekknum varnarlega og lét Tracey finna vel fyrir sér. Á tímabili leit út fyrir að þeir kumpánar myndu grípa til handalögmála en allir náðu að kæla sig niður áður en til þess kom.

Páll Axel hitti vel framan af, og var með 3 þrista í 5 tilraunum en síðan ekki söguna meir og brenndi af 3 í viðbót áður en yfir lauk. Skallagrímsmenn voru heilt yfir ekki að fá mikið framlag frá öðrum leikmönnum en Tracey og Palla, og Tracey þurfti að hafa mikið fyrir sínum skotum. Arnar Bjarnason (8 stig) og Daði Grétarsson (8 stig) áttu sína spretti en aðrir leikmenn skoruðu minna.

4. og síðasti leikhluti einkenndist helst af algjöru þristaregni frá Grindvíkingum. Settu þeir 6 slíka í 10 tilraunum og enduðu með 40% nýtingu fyrir utan. Hin landsþekkta skytta Magnús Gunnarsson setti 4 í 9 tilraunum, þar af tvo stóra í röð í 3. leikhluta, en enginn hitti oftar og betur en Daníel Guðni Guðmundsson sem setti 5 af 8. Það sem einkenndi líka skothríð Grindvíkinga að flestir þristarnir voru ekkert nema net og ef Grindvíkingar detta í þennnan skotgír eru þeir illviðráðanlegir.

Lokatölur urðu 106-75, heimamönnum í vil, sem að völtuðu einfaldlega yfir gestina í seinni hálfleik. Mikil barátta og vinnusemi einkenndi leik heimamanna en sem dæmi má nefna að Ólafur Ólafs og Ómar Örn Sævarsson tóku samanlagt 36 fráköst, en Skallagrímsliðið náði í heildina ekki nema 39, Grindavík 55. Ólafur átti fantagóðan leik og skoraði að auki 18 stig. Fimm leikmenn Grindavíkur döðruðu við 20 stigin en Magnús Þór Gunnarsson komst næst því með 19.”

Hjá Skallagrími var Tracey Smith stigahæstur með 28 stig og 13 fráköst og Páll Axel næstur með 19 stig og 5 fráköst.”

Tölfræði leiksins

Myndasafn karfan.is (Skúli Sigurðsson)

Myndasafn Grindavik.is (Facebook)