Einn Grindvíkingur í úrvalsliðinu

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Úrvalslið úrvalsdeildar karla fyrir fyrri hluta 2012-2013 (umferðir 1-11) var kynnt í húsakynnum KKÍ. Tveir leikmenn af Suðurnesjum voru í úrvalsliðinu að þessu sinni og er annar þeirra úr Grindavík; Samuel Zeglinski. Sá er af miklu körfubolta kyni kominn í Bandaríkjunum.

Sammy Zeglinski hjá Grindavík hefur vakið athygli í upphafi móts. Hæfileikar hans eru ótvíræðir en hann segist eiga eftir að sýna meiri stöðugleika þegar líður á veturinn. Sammy Zeglinski er einn þriggja bræðra sem gerðu garðinn frægan í menntaskóla- og háskólakörfuboltanum en bræður hans eru Zack og Joe. Körfuboltauppeldi sitt fengu þeir í Calvary Athletic Association í Millbrook. Í skemmtilegri grein um þá bræður í Northeast Times Star segir að bræðurnir hafi gengið í gegnum súrt og sætt á ferlinum með ýmsum óvæntum uppákomum sem líkja megi við góðan söguþráð í hinum frægu þáttum Lost! En alltaf hafa þeir staðið saman, sama hvað hefur gengið á. Í sumar stóðu þeir fyrir körfuboltabúðum í heimabæ sínum sem þeir kölluðu „The Zeglinski Basketball Academy”, sem vöktu athygli og voru tilefni greinarinnar. Þessar búðir eru komnar til að vera.

Vissu hvað var að vera hluti af lið
Zack er elstur þeirrra bræðra en hann 26 ára. Joe er miðbróðirinn 25 ára en Grindvíkingurinn Sammy sá yngsti eða 24 ára. Fram kemur í greininni að Zack hafi verið fremsti íþróttamaðurinn af þeim bræðrum en besti vinur hans er Matt Ryan sem er leikstjórnandi Atlanta Falcons í NFL ruðningsdeildinni. Zack þótt framúrskarandi þriggja stiga skytta. Joe fylgdi í fótspor hans og léku þeir bræður saman um tíma. En okkar maður, Sammy, fór líkt og bræður sínir í Penn Charter menntaskólann og var virkur í þremur íþróttagreinum. En körfuboltinn átti hug hans allan og vakti frammistaða hans athygli. Hann varð næst stigahæsti leikmaður skólans frá upphafi í lok menntaskólagöngunnar. Þess má geta að faðir bræðranna, John, lék bæði ruðning og körfubolta í Wake Forest háskólanum og þótt mikill íþróttamaður á sínum tíma.
Fram kemur í viðtalinu að þeir bræður voru alltaf að keppa sína á milli í hinum ýmsum íþróttagreinum á sínum yngri árum. En Zack lenti í alvarlegum hnémeiðslum í fótboltaleik sem varð til þess að hann þurfti að gefa íþróttaferilinn upp á bátinn. Joe fékk hinsvegar styrk til háskólanáms í háskólanum í Virginíu þar sem hann lék í ACC deildlinni við góðan orðstýr. Í fjögur ár var hann í byrjunarliði Cavaliers og er hann í fimmta sæti yfir stigahæstu þriggja stiga skyttur skólans frá upphafi.

,,Bræðurnir höfðu alltaf skilning á því hvað það var að vera hluti af liði,” segir Jim Phillips í viðtalinu en hann þjálfaði alla bræðurna á sínum tíma í Penn Charter og aðstoðaði þá við körfuboltabúðirnar í sumar. ,,Zack var besti íþróttamaðurinn, Joey var mesti stigaskorarinn en Sammy var besti körfuboltamaðurinn af þeim,” sagði hann jafnframt.

Sammy segir í viðtalinu að það hafi verið erfiður tími fyrir fjölskylduna þegar Zack meiddist. En allir bræðurnir hafa gengið menntaveginn ekki síst vegna þeirra skólastyrkja sem þeir fengu í gegnum íþróttirnar. Þeir létu gamlan draum rætast í sumar að starfrækja körfuboltabúðirnar á sínum heimaslóðum. Sammy er svo kominn til Grindavík og Joe lék um tíma í Danmörku en er hættur sjálfir að spila og farinn að einbeita sér að körfuboltaakademíunni.

,,Sama hvað gerist í framtíðinni þá er uppáhalds minningin mín að vera heima með bræðrum mínum í Northeast Philly. Að þróa áfram þessa körfuboltaakademíu mun færa okkur nær hver öðrum. Ég er spenntur fyrir framtíðinni,” segir Sammy í viðtalinu sem var birt um miðjan júlí.

Með góða körfuboltagreindavísitölu
En hvernig skyldi akademían hafa gengið?
„Þetta gekk mjög vel og er ótrúlega spennandi. Við þjálfum krakka í hverfinu þangað til þau fara í menntaskóla. Bræður mínir eru að reyna að lifa af þessu og þegar ég hætti sjálfur að spila fer ég aftur heim og tek þátt í þessu með þeim af fullum krafti,” segir Sammy við heimasíðuna þar sem hann situr í sófanum hjá Einari Dabjartssyni flugmanni þar sem hann er til húsa í vetur.

Sammy segist bjartsýnn á veturinn hjá Grindavík. Meiri liðsbragur sé á spilamennskunni en í upphafi móts, liðið sé vel mannað og líklegt til afreka. Hann segist hafa ákveðið að koma til Íslands því þetta hafi verið spennandi tækifæri til þess að spila og koma sér eitthvað lengra í boltanum. Hann ber Grindavík góða söguna, segist hafa fengið góðar móttökur og sér líði vel, sem sé fyrir mestu.

En í hverju felast styrkleikar hans sem leikmanns?
„Ég er með góða körfuboltagreindarvísitölu. Ég skil leikinn og les hann vel og svo get ég skorað grimmt ef ég er í stuði,” sagði þessi geðþekki og hressi Bandaríkjamaðurinn að endingu.

Samuel Zeglinski í góðum félagsskap, hann er fjórði frá vinstri.