Einar Karl gengur til liðs við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Miðjumaðurinn Einar Karl Ingvarsson er genginn til liðs við Grindavík og hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Einar Karl, sem er 29 ára gamall, hefur undanfarin tímabil leikið með Stjörnunni en hann á að baki mjög farsælan feril með liðum líkt og FH, Breiðabliki, Val og Fjölni.

Einar Karl þekkir ágætlega til hjá Grindavík en hann lék með félaginu tímabilið 2014 á láni. Hann á að baki rúmlega 200 leiki í deildar keppni og bikar og skorað 16 mörk á ferlinum.

„Ég er gríðarlega stoltur af því að bjóða Einar Karl velkominn til félagsins. Þetta er frábær leikmaður og persóna sem á eftir að styrkja okkar lið mikið. Koma hans til félagsins endurspeglar þann mikla metnað sem við í Grindavík höfum til að berjast um að komast á ný í deild þeirra bestu,“ segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur.

„Það er mjög ánægjulegt að vera genginn til liðs við Grindavík. Mér leið mjög vel hjá félaginu þegar ég var hér síðast og það er mikill hugur í Grindvíkingum. Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímabili með Grindavík og hlakka til að hefast handa,“ segir Einar Karl.

Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Einar Karl velkominn til félagsins og hlökkum við til að sjá hann klæðast gulu og bláu Grindavíkurtreyjunni á komandi tímabili.