Ég mun leggja hart að mér

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Sem kunnugt er voru gerðar breytingar á reglugerð um bandaríska leikmenn í úrvalsdeild karla og er aðeins leyfilegt að hafa einn slíkan í hverju liði. Grindavík samdi við Kendall Timmons úr Tulane háskólanum þaðan sem hann útskrifaðist í vor og er því að hefja atvinnumannaferil sinn. Timmons mun því fylla skarð Chris Stephenson sem félagið lét fara á dögunum.

Kendall Timmons ólst upp í Fort Worth, Texas. Þar æfði hann alvöru evrópskan fótbolta og svo körfubolta sem hann heillaðist strax af. Hann er elstur fimm systkina, á tvo bræður og tvær systur. Hans helstu áhugamál fyrir utan körfuboltann eru tónlist og segist hann hafa mjög breiðan smekk. 

Þegar rætt var við Timmons hafði hann enn ekki komið til Íslands en hann var gríðarlega spenntur fyrir þessu verkefni, að ganga til liðs við sjálfa Íslandsmeistaranna.

„Ég veit nú ekki margt um landið nema bara að það verður kalt og það snjóar mikið á veturna. Í raun er ég nokkuð spenntur að sjá snjóinn. Það snjóar sjaldan í Texas,” segir Kendall.

Hann þekkir til nokkurra samlanda sinna sem hafa spilað á Íslandi og hafa lagt inn gott orð um íslenskan körfubolta. Þar á meðal eru tveir liðsfélagar hans síðan úr Tulane háskólanum, þeir Asim McQueen sem lék með Snæfelli í fyrra og enginn annar en Kevin Sims sem lék einmitt með Grindavík tímabilið 2010-2011. Sims náði sér reyndar ekki á strik með Grindavík og var látinn fara. En hann hefur reyndar gert það ágætt sem atvinnumaður síðan þá og leikur núna í Rúmeníu þar sem hann stóð sig mjög vel þar til hann sleit krossband í hné og er hann að jafna sig af þeim meiðslum. 

Fjölhæfur leikmaður

En hvers konar körfuboltamaður er Kendall Timmons?
„Ef ég á að reyna lýsa mér sem körfuboltamanni þá myndi ég segja að ég sé duglegur leikmaður og mikill liðsmaður. Ég er fjölhæfur og get spilað á báðum endum vallarins. Ég er drauma leikmaður hvers þjálfara, legg mig ávallt fram og auk þess er ég frábær liðsfélagi,” sagði Timmons léttur í bragði.

Hann er að komast í gang eftir meiðsli en hann sleit hásin.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég meiðist alvarlega. Þetta er búið að vera erfitt ferli en ég held að meiðslin og endurhæfingin séu búin að styrkja mig sem leikmann, bæði líkamlega og ekki síst andlega. Ég var um sjö mánuði að jafna mig á meiðslunum en náði síðasta tímabilinu í skólanum sem
sem var sterkt fyrir andlegu hliðina. Ég tel mig vera tilbúinn í atvinnumennskuna og að spila á Íslandi,” segir Timmons.

Þegar rætt var aftur við Timmons, eftir komuna til Íslands, var hann afar ánægður með móttökurnar. Hann segir að það taki sig tíma að aðlagast íslenska boltanum en sér lítist vel á Grindavíkurliðið og þjálfarann.

„Markmið mín eru skýr, að leggja hart að mér og hjálpa liðinu af fremsta megi svo við getum haldið áfram sigurgöngu liðsins. Þetta verður skemmtilegt tímabil og ég er gríðarlega spenntur” sagði Kendall að endingu.


Viðtalið birtist einnig í Leikskrá körfuknattleiksdeildarinnar sem dreift verður i öll hús í bænum og víðar.