Á kjöri íþróttamanns og íþróttakonu ársins á gamlársdag voru veitt svokölluð Hvatningarverðlaun til efnilegs íþróttafólks í Grindavík. Það eru deildir UMFG og Golflkúbbur Grindavíkur sem sjá um að tilnefna.
Eftirtaldir fengu Hvatningarverðlaunin 2013:
- Kristján Ari Heimisson, sunddeild UMFG
Kristján hefur stundað íþróttina af kappi og tekið miklum framförum á árinu. Hann er til fyrirmyndar í lauginni og utan hennar og stundar íþróttina af kappsemi.
- Ína Ösp Úlfarsdóttir Aspar, fimleikadeild UMFG
Hún hefur sýnt miklar framfarir og komið vel undirbúin á æfingar. Er góð fyrirmynd og verið sjálfri sér og deildinni til sóma.
- Helgi Heiðarr Sigurðarson, júdódeild UMFG
Helgi er góð fyrirmynd á æfingum hjá yngri hóp í Grindavík. Hann mætir vel, leggur sig vel fram og hefur tekið miklum framförum. Er ávallt tilbúinn að hjálpa til og liðsinna yngri krökkunum.
- Marinó Axel Helgason, knattspyrnudeild UMFG
Rólegt yfirbragð hans er einkenni sem allir taka eftir. Hann stundar sínar æfingar af kappi og tekur þátt í því sem verið er að gera hverju sinni, t.a.m dómgæslu og þjálfun hjá yngri flokkum félagsins. Hann hefur þroskast á afar jákvæðan hátt og sýnir aukið sjálfstæði og sýnt miklar framfarir á öllum sviðum. Marinó Axel er öðrum iðkendum til fyrirmyndar í leik og starfi.
- Margrét Rut Reynisdóttir, knattspyrnudeild UMFG
Margrét Rut er mjög metnaðarfull og leggur sig alltaf 100% fram í því sem að hún tekur sér fyrir hendur. Þá skiptir ekki máli hvort það sé nám, æfingar, keppni eða þjálfun. Hún er mjög skipulögð en hún hefur alltaf haft nóg fyrir stafni og náð að sinna öllu vel. Með þessa eiginleika á Margrét Rut eftir að ná langt í því sem að hún tekur sér fyrir hendur.
- Nökkvi Harðarson, körfuknattleiksdeild UMFG
Var fyrirliði 11.flokks drengja sem var Íslands- og bikarmeistari á síðustu leiktíð. Nökkvi er leikmaður sem gefur alltaf allt sitt í leikinn og mættu margir taka það til fyrirmyndar. Nökkvi er mikil félagsmaður og er alltaf tilbúinn að hjálpa til fyrir félagið sitt. Nökkvi hefur lagt mikið á sig síðustu ár og hafa framfarir hans verið gríðarlegar. Nökkvi er draumur hvers þjálfara, hann tekur vel við fyrirmælum.
Nökkvi er gott dæmi um hvað vinnusemi og dugnaður getur gert mikið fyrir unga og efnilega leikmenn. Nökkvi er nú þegar búinn að spila sínu fyrstu leiki fyrir meistaraflokk félagsins og á hann framtíðina fyrir sér ef hann heldur áfram á sömu braut.
- Guðný Dröfn Guðbjartsdóttir, körfuknattleiksdeild UMFG
Hefur verið mjög dugleg að æfa síðustu misseri og hefur tekið miklum framförum. Guðný byrjaði í körfubolta fyrir tveimur árum og síðan þá hefur hún tekið körfuboltaiðkun sína alla leið, t.d mætt á allar sumaræfingar sem í boði eru. Guðný er mikil íþróttakona og er fljót að meðtaka nýja hluti sem henni er kennt. Guðný er einnig dugleg við að hjálpa sínu félagi og er alltaf til taks. Guðný er mikil fyrirmynd fyrir þá sem byrja seint og hún hefur sýnt að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.
- Jakob Máni Jónsson, taekwondó UMFG
Hann sýnir íþróttinni mikinn áhuga og metnað. Hann mætir vel á æfingar og tekur þátt í flestum mótum. Hann er kurteis drengur og fyrirmyndariðkandi.
Mynd: Íþróttafólkið og fulltrúar tveggja þeirra sem fengu Hvatningarverðlaunin.
Myndina tók Guðfinna Magnúsdóttir