Dýrmætt jöfnunarmark

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík krækti í ákaflega mikilvægt stig í botnbaráttuslagnum gegn Fram í kvöld. Úrslitin urðu 2-2 en það var varamaðurinn Hafþór Ægir Vilhjálmsson sem jafnaði metin á 87. mín. eftir að markvörður Fram hafði varið skalla Pape Mamadou Faye.

Kristinn Ingi Halldórsson kom Fram yfir í fyrri hálfleik en Iain Williamson jafnaði metin á 59. mín. fyrir Grindavík. Fram komst aftur yfir á 73. mín. en Hafþór Ægir reyndist bjargvættur Grindavíkur. Grindavík fékk svo gott færi í lokin en Ameobi brást skotfimin. Annars var Óskar Pétursson besti maður Grindavíkur.

Það var ákaflega mikilvægt fyrir Grindavík að tapa ekki þessum leik því nú skilja enn 6 stig þessi lið að.

Staðan í deildinni er þessi:
1. FH 13 9 2 2 35:14 29
2. KR 14 8 3 3 26:17 27
3. ÍBV 13 7 2 4 23:12 23
4. Stjarnan 14 5 7 2 29:25 22
5. Breiðablik 14 6 4 4 15:17 22
6. Keflavík 14 6 3 5 24:20 21
7. ÍA 14 6 3 5 21:26 21
8. Fylkir 14 5 5 4 20:24 20
9. Valur 14 6 0 8 20:21 18
10. Fram 14 4 1 9 17:22 13
11. Selfoss 14 2 2 10 15:31 8
12. Grindavík 14 1 4 9 18:34 7

Guðjón: Þurfum meiri trú
„Þetta voru vonbrigði. Við settum leikinn upp til að vinna en það vantaði kannski meiri ákefð í byrjun leiksins. Ef við hefðum náð að spila allan leikinn eins og við spiluðum í seinni hálfleik þá er ég viss um að við hefðum getað unnið þennan leik,” sagði Guðjón Þórðarson þjálfari Grindavíkur eftir leikinn við Vísi.

„Við sýndum karakter að jafna hérna í restina og ég hefði viljað sjá skotið hans Tomi hér í restina hitta ramann en ekki fara yfir slána. Við vorum nálægt því að ná öllum þremur stigunum en það gerðist ekki því miður og því er staðan óbreytt á botninum.

„Við hefðum getað verið meira undir í hálfleik, fyrri hálfleikurinn var slakur hjá okkur en engu að síður fengum við eitt besta færið í fyrri hálfleiknum. Í sjálfu sér hefðu Framarar getað sett eitt líka. Í seinni hálfleik hefðum við getað búið til betri stöður en gerum.

„Það hefði verið hræðilegt að tapa þessum leik, þá hefðum við þurft nánast kraftaverk en það kom fínn kraftur í þetta. Hafþór gerði það sem hefur oft vantað hjá okkur, hann var virkur í teignum fylgdi á eftir og kom boltanum yfir línuna.

„Eins og staðan er núna hefur ekkert breyst og þetta verður blóðug barátta alveg til loka. Ég vil meina að við eigum meira inni en það sem menn hafa verið að taka í þessar 90 mínútur en það virðist alltaf vera þannig að menn þurfa að vera komnir í einhverja dauða stöðu til að þeir stígi fastar til jarðar. Við þurfum að spila í 90 mínútur og hafa meiri trú. Ég hef talað um þetta frá því við byrjuðum í vor að menn þurfi að hafa meiri trú á sjálfum sér og félögunum í liðinu. Við sjáum að það er alveg hægt að flytja boltann og færa hann á milli manna þegar sá gállinn er á, sagði Guðjón að lokum við Vísi.

 

Mynd/Víkurfréttir: Ian Williamson markaskorari Grindavíkur í leiknum í kvöld.