Davor Suker fékk Grindavíkur treyju að gjöf

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Davor Suker er markahæsti leikmaður króatíska landsliðsins frá upphafi með 45 mörk en hann skoraði þau á tímabilinu 1992-2002.  Suker starfar í dag sem formaður knattspyrnusambands Króatíu og hann mun að sjálfsögðu koma til Íslands á fyrri leikinn í umspilinu í næstu viku. Suker á sitt lið í íslenska boltanum en hann fékk treyju Grindavíkur að gjöf fyrir nokkrum árum síðan.

Suker og Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindvíkinga, spiluðu saman í fjögur ár með Osijek á sínum tíma og þeir hafa haldið sambandi síðan þá. Þeir voru með knattspyrnuskóla saman fyrir nokkrum árum og þá ákvað Jankó að gefa Suker treyju frá Grindavík.

,,Hann var ánægður með að fá þessa treyju,” sagði Milan Stefán við Fótbolta.net en hann ætlar að taka vel á móti Suker þegar hann kemur til landsins.

,,Hann ætlar að hitta mig þegar hann kemur til Íslands og við förum í bláa lónið.”

Milan Stefán er frá Króatíu en hann er með íslenskan ríkisborgararétt og mun styðja Ísland í umspilsleikjunum. ,,Ég hef sagt fólki í Grindavík að ég muni halda með Íslandi. Ég vil frekar að þeir fari áfram,” sagði Milan Stefán.

Hér að neðan má sjá mörkin sem Davor Suker skoraði þegar hann var markakóngur á HM 1998.

Fotbolti.net