Daníel Leó og Jankó í viðtali hjá Víkufréttum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Eins og við greindum frá á dögunum er Daníel Leó Grétarsson á leið í atvinnumennsku til Noregs. Hafa þessi vistarskipti vakið töluverða athygli enda Daníel enn mjög ungur að árum, en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið lykilmaður á liði Grindavíkur síðustu tvö ár.

Víkurfréttir tóku Daníel tali á dögunum, en þar þakkar hann ströngum aukaæfingum og þjálfara sínum, Milan Stefáni Jankovic, árangurinn. Hluta viðtalsins má lesa hér að neðan:

Aukaæfingarnar skila sér í atvinnumennsku

Varnarmaðurinn ungi Daníel Leó Grétarsson heldur brátt í víking, en hann mun á næstunni semja við norska úrvalsdeildarliðið Aalesund. Þar með er æskudraumur Grindvíkingsins unga að rætast. Daníel, sem er 19 ára, hefur leikið reglulega með Grindvíkingum síðan hann var 16 ára. Hann hefur fest sig í sessi sem lykilleikmaður, en svo vel hefur hann staðið sig að í lok sumars var hann kjörinn besti leikmaður meistaraflokks félagsins.

„Þetta er gott lið fótboltalega séð en um er að ræða stórt stökk fyrir mig. Ég er búinn að undirbúa mig vel og vera í liðinu síðustu tvö tímabil. Það hefur gert gott fyrir mig og eflaust hef ég fengið reynslu sem verður mér dýrmæt,” segir Daníel. Sjálfur telur Daníel að hann hafi bætt sig sem leikmann í sumar. Hann hefur átt gott samstarf við Milan Stefán Jankovic þjálfara sem hefur lagt mikið traust á hans ungu herðar. „Það að vera ungur lykilmaður í liði lætur mann þurfa að stíga upp fyrr og þar af leiðandi bætir maður sig fyrr,” segir hann.

Framtíðin í íslenskum fótbolta

Janko þjálfari sparar ekki stóru orðin þegar kemur að Daníel. „Hann er fyrst og fremst sterkur karakter. Hann les leikinn vel og er með góðar sendingar. Hann er frábær leikmaður og er í raun framtíðin í íslenskum fótbolta. Hugarfarið hjá honum er alveg 110% og hann hugsar vel um sig. Hann mun banka á landsliðsdyrnar hjá aðalliðinu á næstu árum, það er ég alveg viss um,” segir þjálfarinn sem hefur verið honum innan handar jafnt kvölds sem morgna við æfingar. „Ég hef sótt hann og farið með honum klukkan sex á morgnana að æfa aukalega síðustu 2-3 ár. Ég er viss um að hann á eftir að komast langt og fara í betra lið þegar fram líða stundir. Hann er sérstakur leikmaður sem hefur nánast allt til brunns að bera,” bætir Janko við.

Mikil vinna er að baki þessum árangri en svona tækifæri fást ekki gefins. „Maður er í þessu til að fá svona tækifæri. Ég hef sett mér markmið og hef gert mitt besta til þess að ná þeim. Ég fer nánast aldrei í frí frá boltanum. Þegar það er frí þá fer ég að lyfta eða tek aukaæfingu í Hópinu. Ég hef átt margar klukkustundir aleinn í Hópinu að æfa. Þetta tækifæri verður ekkert til út af engu,” segir Daníel.

Víkurfréttir