Daníel Guðni tekur við kvennaliðinu í körfunni

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Þær fréttir bárust í dag að formlega hefði verið gengið frá ráðningu nýs þjálfara hjá meistaraflokki kvenna í körfubolta en sá sem hreppti hnossið var enginn annar en Daníel Guðni Guðmundsson, leikmaður meistaraflokks karla. Daníel hefur áður þjálfað yngri flokka en mun stíga sín fyrstu skref sem þjálfari í efstu deild í vetur. Við óskum Daníel að sjálfsögðu til hamingju með nýja starfið og óskum honum góðs gengis í vetur.

http://karfan.is/read/2015-07-03/daniel-gudni-tekur-vid-bikarmeisturum-grindavikur/ greindi frá þessu í morgun:

„Bikarmeistarar Grindavíkur hafa fengið nýjan stjóra við stýrið en sá heitir Daníel Guðni Guðmundsson og heldur hann því inn í sitt fyrsta úrvalsdeildarár sem aðalþjálfari. Daníel eins og kunnugt er spilar einnig með meistaraflokki karla í Röstinni og eins og kappinn komst að orði við Karfan.is: „Ætli ég verði ekki bara með góða skrifstofu uppi í íþróttahúsi.”

Daníel hefur aðallega þjálfað á stigum yngri flokka, bæði hjá Njarðvík og Grindavík en fetar nú sín fyrstu spor í úrvalsdeild. Ferskir vindar í þjálfararáðningum hjá Grindvíkingum þetta sumarið því Jóhann Þór Ólafsson fyrrum aðstoðarþjálfari Sverris Þórs Sverrissonar er tekinn við karlaliðinu, bæði gulu og glöðu liðin fá því stjóra sem eru á fyrsta ári sem aðalþjálfarar í úrvalsdeild.

Daníel sagði í samtali við Karfan.is að leikmannamál væru í vinnslu en eins og flestum er kunnugt verða Grindvíkingar fyrir búsifjum þar sem miðherjinn María Ben Erlingsdóttir gengur með barn undir belti og allar líkur á því að hún verði ekkert með næsta tímabil. Tíðinda sé þó að vænta á næstunni úr Röstinni af leikmannamálum.“

Mynd: Karfan.is