Crystal Smith tekur við kvennaliðinu og Guðmundur aðstoðar

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Bandaríski leikmaðurinn Crystal Smith hefur tekið við sem þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í körfubolta og Guðmundur Bragason verður henni til aðstoðar. Þetta staðfesti Guðmundur við heimasíðuna í morgun en þetta fyrirkomulag verður til reynslu fram að áramótum. Grindavík hefur verið án þjálfara í síðustu tveimur leikjum eftir að Bragi Magnússon hætti störfum eftir dapra byrjun liðsins.

Óhætt er að segja að talsverðar breytingar hafi verið hjá kvennaliðinu það sem af er vetri. Margir af fyrrverandi leikmönnum sneru heim en þrátt fyrir alla liðsstyrkinguna tapaði liðið fyrstu fimm leikjunum.  Skipt var um bandarískan leikmann og kom Crystal Smith í liðið og hefur hún staðið sig feikilega vel. Bragi ákvað að hætta og vann liðið fyrsta leikinn eftir að hann hvarf á braut en tapaði svo naumlega fyrir Haukum í síðustu umferð.

Að sögn Guðmundur svaraði hann kallinu þegar leitað var til hans af Grindavík og verður hann Smith fyrst og fremst til aðstoðar í leikjum þar sem hann mun stýra liðinu og hún einbeitir sér að því að spila sjálf.

Ólöf Helga Pálsdóttir hefur ekkert leikið með Grindavík það sem af er móti vegna meiðsla en hins vegar styttist í endurkomu hennar.