Bullock valinn besti leikmaður 14. umferðar

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Karfan.is hefur valið J´Nathan Bullock leikmann Grindavíkur sem besta leikmann 14. umferðar. Þessi útnefning ætti svo sem ekki að koma á óvart, J´Nathan Bullock gerði 51 stig í fjórtándu umferð þegar Grindavík vann magnaðan spennusigur á ÍR með flautukörfu.  Bullock var einnig valinn besti leikmaður 12. umferðar.

Kappinn setti framlagsmet í deildinni með 53 í framlag en hann tók líka 14 fráköst í sigurleiknum gegn ÍR og var með ljómandi góða nýtingu.

Bullock setti niður 21 af 31 skoti í teignum, 2 af 4 í þristum og 3 af 5 vítum. Þá er Bullock fyrsti leikmaðurinn á tímabilinu til þess að verða Gatorade-leikmaður umferðar í tvígang.

Bullock og Grindvíkingar tróna á toppi deildarinnar með 26 stig og hafa sex stiga forskot á Stjörnuna og Keflavík með 20 stig í 2.-3. sæti deildarinnar. Næsti Grindavíkurleikur er á föstudag þegar gulir halda norður og mæta Tindastóli í Skagafirði.