,,Við vissum að við værum á leið hingað í stríð, við mættum þeim hér í lok deildarkeppninnar og þeir tóku okkur þá svo við vildum vera vel tilbúnir fyrir fjandsamlegt umhverfi hér í kvöld. Þeir eiga frábæra stuðningsmenn og andrúmsloftið hér er frábært fyrir körfubolta svo við undirbjuggum okkur vel andlega fyrir þessa viðureign,” sagði J´Nathan Bullock við Karfan.is í gærkvöld en kappinn fór fyrir Grindavík þegar deildarmeistararnir tóku 2-0 forystu gegn Þór Þorlákshöfn í slagnum um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.
,,Mér fannst þessi leikur í kvöld vera nærri báðum liðum en fyrsti leikurinn, minna skorað og meiri áhersla á vörnina. Í fyrsta leiknum voru margir heitir en í kvöld var þetta aðeins eðlilegra. Við lögðum áherslu á að reyna að hemja þristana hjá þeim en þeir eru með mjög gott skotlið svo við viljum ekki og ætlum ekki að gefa þeim fría þrista ef við komumst hjá því,” sagði Bullock en hvað er það sem Grindvíkingar þurfa að óttast, ef eitthvað, fyrir leik þrjú?
,,Við vitum að þeir munu koma í leik þrjú og berjast enda eru þeir þannig lið, þeir gefast aldrei upp svo við verðum að vera klárir,” sagði Bullock en nú búast flestir við því að Grindavík sópi einvígið 3-0, verður það stærsti höfuðverkur Grindavíkur á sunnudag að halda einbeitingu og gjóa augunum ekki um of á Íslandsbikarinn sem verður reiðubúinn til afhendingar ef gulir vinna?
,,Við vitum að þeir mæta klárir og að það verði orrusta, við leyfum okkur ekki að hugsa um sigur eða tap, bara það að vera á leið í orrustu,” sagði Bullock sem kvaðst fjarri því að vera orðinn þreyttur þar sem hann hefur þegar verið eitt ár í fríi áður en hann kom til Grindavíkur en þá var hann að glíma við meiðsli.